Innlent

Maðurinn sem leitað var við Snæfellsjökul er heill á húfi

Maðurinn, sem björgunarsveitir á Snæfellsnesi leituðu að í gærkvöldi fannst undir miðnættið heill á húfi.

Það voru björgunarsveitirnar Lífsbjörg og Klakkur af Snæfellsnesi sem voru kallaðar út vegna mannsins sem var villtur við Snæfellsjökul.

Maðurinn, sem er erlendur, fór upp að jökli í gærdag á vélhjóli en festi hjólið og hugðist sækja það í gærkvöldi. Ekki vildi betur til en að hann missti áttir og villtist. Hann var einnig ókunnur aðstæðum á svæðinu og varð óttasleginn þegar myrkur skall á og hringdi eftir aðstoð, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Eftir að björgunarsveitir útveguðu túlk fóru aðstæður að skýrast. Maðurinn notaði blikkandi vasaljós til að vísa björgunarsveitarmönnum veginn og fannst hann við Eysteinsdalsveg.

Mikil ófærð var á þessum slóðum og því tók það nokkurn tíma fyrir björgunarsveitirnar að komast að manninum og koma honum til byggða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×