Innlent

Spá stormi og stórhríð austanlands í dag

Austanlands er spáð er stormi og stórhríð í dag, frá Þistilfirði og suður fyrir miðja Austfirði. Reiknað er með vindhviðum upp á 30-40 m/s suðaustanlands, frá Hornafirði austur í Berufjörð frá því skömmu fyrir hádegi og fram á kvöldið.

Sunnan- og vestanlands dregur úr éljum og léttir til. Um og upp úr miðjum degi frystir við veg og með vaxandi ísingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir að það sé hálka og éljagangur á Sandskeiði og Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum. Víða er hált á Suðurlandi.

Hálka er á velflestum vegum á Vesturlandi en snjóþekja á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða snjóþekja. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar.

Hálka er víða á Norðurlandi. Varað er við flughálku í Fnjóskadal og Köldukinn. Þungfært er um Hófaskarð og Hálsa en þæfingur á Brekknaheiði. Búið er að moka yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Á Austurlandi er víðast hvar hált. Skafrenningur er á Fjarðarheiði og Fagradal. Þæfingsfærð er í Oddsskarði. Vatnsskarð eystra er ófært.

Vetrarfærð er einnig á Suðausturlandi en hvergi fyrirstaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×