Innlent

Óásættanlegt að fólk viti ekki hvað það skuldar í framtíðinni

Erla Hlynsdóttir skrifar
„Það er algjörlega óásættanlegt að fólk geti ekki haft áhrif á hvað það skuldar í framtíðinni," segir þingmaðurinn Margrét Tryggvadóttir, sem enn berst gegn verðtryggingunni.

Eins og fram kom í fréttum okkar í gær hækka verðtryggðar skuldir heimilanna um 28 milljarða króna á þessu kjörtímabili vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar, sem samsvara ríflega 200 þúsund krónum fyrir hvert heimili að meðaltali.

„Eðli málsins samkvæmt halda þær áfram vegna þess að við erum með verðtryggð lán á heimilunum, skuldir heimilanna eru að stórum hluta verðtryggðar og þegar skattarnir hækka, sem er ekkert óeðlilegt, skattabreytingar í sjálfu sér eru ekki óeðlilegar, en kerfið okkar er þannig að ef eitthvað hreyfist þá fer allt af stað og smávægilegar hækkanir, til dæmis hækkanir á sykri, valda því að skuldir heimilanna hækka um tugi þúsunda, jafnvel hundruði þúsunda, og það auðvitað gengur ekki." segir Margrét.

Fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að verðtryggðu skuldirnar hækki þá alls um tvo og hálfan milljarð. Margrét er ein þeirra sem lengi hefur talað fyrir afnámi verðtryggingarinnar.

„þetta er eitthvað kerfi sem engar þjóðir búa við, það eru áhöld um það hvort þetta standist neytendalöggjöf evrópusambandsins sem við erum aðilar að. Þótt það gerði það þá er það algjörlega óásættanlegt að skuldbindingar fólks séu þannig að það geti ekki haft nein áhrif á hvað það skuldar mikið í framtíðinni og ekki vitað það með neinum hætti , og ekki skipulagt líf sitt með skynsamlegum hætti eins og fólk getur í flestöllum öðrum löndum," segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×