Innlent

Reglugerðin gerir húsnæði dýrara og óvistvænna

Karen Kjartansdóttir skrifar
Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður Samtaka iðnaðarins.
Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður Samtaka iðnaðarins.
Ný byggingarreglugerð mun gera húsnæði dýrara og óvistvænna, draga úr framkvæmdum, eyða hefðum í íslenskri byggingarlist og hækka lán. Þetta er meðal þess sem kemur fram í máli þeirra Friðriks Ágústs Ólafssonar, forstöðumanns Samtaka iðnaðarins, og Guðrúnar Ingvarsdóttur, verkefnastjóra þróunarverkefna hjá Búseta.

Nýja reglugerðin gerir ráð fyrir svokallaðri algildri hönnun í öllum nýjum húsum. Það er að allt húsnæði sé þannig úr garði gert að það henti öllum hvort sem fólk glímir við skerta hreyfigetu eða sjónskerðingu.

Er það ekki jákvætt?

„Það er akkúrat þess vegna sem við völdum þetta mannvirki hér sem er fyrir aftan okkur. Það er til fyrirmyndar. Allt varðandi hönnun þessa mannvirkis, með hugsuninni um algilda hönnun og annað slíkt," segir Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður Samtaka iðnaðarins.

En mannvirkið sem hann vísar til er nýtt þriggjahæða fjölbýlishús með lyftu í Litlakrika í Mosfellsbæ.

Friðrik segir að þótt kveðið sé á um að öll frumvörp, bæði til laga og reglugerða séu kostnaðargreind, hafi það ekki verið gert fyrir þessa reglugerð. Þegar Samtök iðnaðins hafi beðið Mannvirkjastofnun um að meta hve mikill auka kostnaður hefði hlotist af því fjölbýlishúsið í Litlakrika yrði byggt samkvæmt reglugerðinni hefðu þau fengist að kostnaðurinn væri óverulegur.

Friðrik gefur lítið fyrir þær fullyrðingar, athugun ráðgjafaþjónunstunnar Hannarrs leitt í ljós að kostnaðaraukningin muni nema 10 prósentum -- hið minnsta.

„Þrátt fyrir þetta mjög svo hagkvæma dæmi sem við völdum hér þá reiknast okkur til, þegar við tökum ekki næstum alla þætti með í dæmið, að þetta mannvirki hefði orðið 10 prósent dýrara," segir Friðrik.

Og húsin koma til með að verða mikið stærri. Þótt gangarnir í Litlakrika séu fremur rúmir og eigi að nýtast fólki í hjólastólum vel þyrfti hann að vera miklu breiðari, sem og allir gangar sem gerðir verða eftir að reglugerðin tekur gildi að fullu.

Þá telja þau Friðrik og Guðrún að ekki sé tekið tillit til íslenskra aðstæðna, til dæmis munu kröfur um mjög lága þröskulda í öllum húsum væntanlega auka leka í íslensku regni. Þá verður ekki nóg að vera með lyftu heldur þarf að vera sjálfvirkur dyraopnari og varaaflgjafi fyrir dyraopnarann þótt enginn sem glímir við fötlun búi í húsinu.

„Það eru nú þegar íbúðir sem eru sérstaklega hannaðar með þarfir hreyfihamlaðra í huga í húsinu og stæði fyrir fatlaða en það er beðið um að það sé aukið verulega við þessar kröfur," segir Guðrún.

Auk þess munu húsin öll stækka. {Það eru gerðar miklar kröfur um aukna einangrun þannig það er fyrirséð að húsið myndi stækka verulega og hráefnið sem færi til byggingarinnar aukast," segir Guðrún.

Mun það ekki spara peninga og orku á endanum?

„Orkukostnaður þyrfti að áttfaldast til að sá sparðnaður færi að skila sér. Það er það mikill aukinn fjármögnunarkostnaður og stofnkostnaður við bygginguna. Og ef við horfum til íslenskrar orku, sem við teljum nokkuð vistvæna, þá skýtur þetta nokkuð skökku við," segir Guðrún.

Lofthæð í bílakjallurum þarf einnig að aukst mikið og hefðbundnir veggir með einangrun að innan munu líklega heyra sögunni til.

„Flestir eru á því að það muni hreinlega ekki verða hægt að einangra hús að innan lengur. Fyrir vikið erum við að tala um að það þarf að klæða húsið að utan og þessi hefðbundi íslenski útveggur hann hreinlega hverfur auk þess sem veggirnir munu þykkjast verulega," segir Guðrún.

Þau Friðrik og Guðrún segja fyrirséð að þessar breytingar muni verða til þess að vísitalan hækki og þar með lánin okkar. Þetta samrýmist auk þess ekki stefnu velferðarráðuneytisins um að stuðlað verði að hagkvæmum húsakosti og fjölbreyttu eingaformi. Margt gott sé að finna í reglugerðinni. En það þurfi að vanda mikið meira til verka og frekari tíma þurfi til að fara yfir málin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×