Ungir jafnaðarmenn fagna frumvarpi um niðurgreiðslu á starfsemi heilunarlækna og græðara. Þeir vilja þó ganga talsvert lengra en aðrir í niðurgreiðslunum.
Nokkrir þingmenn Samfylkingar og Vinstri Grænna lögðu til að kannað yrði hvort vit væri í því að niðurgreiða svonefndar heildrænar meðferðir græðara. Hugmyndirnir hafa fallið í grýttan jarðveg og margir telja algera firru að niðurgreiða slíka þjónustu sem þeir kalla gervivísindi.
Ungir jafnaðarmenn eru hins vegar mjög ánægðir með tillögurnar. Þeir vilja þó „að Alþingi Íslendinga gangi enn lengra og niðurgreiði starfsemi miðla, særingarmanna, veiti tímaflökkurum hæli óski þeir þess og verndi stofn íslenska einhyrningsins."
Óhætt virðist að draga þá ályktun að þessar kröfur séu settar fram í kaldhæðni.
Þeir vilja hins vegar einnig benda Alþingi Íslendinga á að hætta að sóa almannafé og tíma og vilja betri forgangsröðun á útdeilingu á almannafé. Eflaust er nokkur alvara að baki þeim kröfum.
