Innlent

Læknir segir "gervivísindi“ ekki eiga heima innan heilbrigðiskerfisins

VG skrifar
Svanur Sigurbjörnsson segir óhefðbundnar lækningar í besta falli skaðlausar, í versta falli skaðlegar lífi og heilsu fólks.
Svanur Sigurbjörnsson segir óhefðbundnar lækningar í besta falli skaðlausar, í versta falli skaðlegar lífi og heilsu fólks.
„Maður myndi halda að þarna á undan væru tannlækningar og sálfræðiþjónusta," segir Svanur Sigurbjörnsson læknir um þingályktunartillögu sem þrír þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram um að skoðað yrði hvort tilefni væri til þess að ríkið niðurgreiði óhefðbundnar lækningar.

Svanur hefur áður gagnrýnt óhefðbundnar lækningar harðlega og skort á gagnrýni að hans mati.

Um tillöguna segir Svanur að ef hún nái að ganga fram þá myndi það hafa vond áhrif á heilbrigðiskerfið. „Það er mikilvægt að svona lagað sé ekki innan heilbrigðiskerfisins," segir Svanur. „Því skilin á milli þess vísindalega og þess sem eru beinlínis gervivísindi verða ógreinilegri, og fjölmargir eiga verulega erfitt með að greina þar á milli," bætir Svanur við.

Hann segir svona þjónustu í besta falli skaðlausa, „en í versta falli er þetta ógn við heilsu og líf fólks," segir Svanur um þá hættu sem getur steðjað að alvarlegum einstaklingum sem hafa ofurtrú á óhefðbundnum lækningum.

Svanur segir málið þó snúast að miklu leytinu til um forgangsröðun. „Í öðrum löndum, Þýskalandi og Bretlandi, hefur þetta ekki reynst vel, heldur þvert á móti verið gríðarlega kostnaðarsamt og árangurinn eðlilega lítill," segir hann og bætir við að slíkur kostnaður hljóti að bitna á öðrum stoðum innan heilbrigðiskerfisins, enda ekki endalausu fjármagni að dreifa.

En Svanur tekur mun hugmyndafræðilegri afstöðu gegn þessari þingsályktun. „Við höfum tækifæri núna til þess að koma í veg fyrir að svona gervivísindi komi inn, og þannig haldið kerfinu vísindalega heilu," segir Svanur að lokum.


Tengdar fréttir

Vilja kanna niðurgreiðslur óhefðbundinna lækninga

Þingmennirnir Guðrún Erlingsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Bjarkey Gunnarsdóttir, varaþingmaður Vg í Norðausturkjördæmi og Ólína Þorvarðardóttir hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem miðar að því að greiða niður það sem heitir heildrænar meðferðir græðara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×