Lífið

Ekki bara glamúrlíf heldur hörku vinna

Fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir hefur undanfarið miðlað af reynslu sinni á framkomunámskeiði Eskimo. Hún segir margar hafa ranghugmyndir um starfið, sem er ekki alltaf dans á rósum.
Fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir hefur undanfarið miðlað af reynslu sinni á framkomunámskeiði Eskimo. Hún segir margar hafa ranghugmyndir um starfið, sem er ekki alltaf dans á rósum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
"Það hefur verið alveg ótrúlega gefandi að vinna með þessum stelpum," segir fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir, sem undanfarið hefur miðlað af reynslu sinni á framkomunámskeiði Eskimo.

Kolfinna hefur gengið tískupallana á helstu tískuvikunum og setið fyrir á síðum stærstu tískublaða í heiminum. Undanfarið hefur hún starfað bak við tjöldin hjá Eskimo og kveðst kunna vel við sig þar. "Það eru margar stúlkur sem ganga um með fyrirsætudraum í maganum án þess að vita nákvæmlega um hvað starfið snýst.

Þar kem ég inn, ég get kippt þeim niður á jörðina og sagt þeim að þetta er ekki bara glamúr. Þetta er hörkuvinna sem er alls ekki fyrir alla," segir Kolfinna, en flestir þátttakendur í framkomunámskeiðinu eru í tíunda bekk.

Kolfinna segir margar stúlkur ekki gera sér grein fyrir raunveruleikanum á bak við flottar myndir í tískublöðum. "Á veturna er til að mynda yfirleitt verið að skjóta sumartískuna og þá er maður í bikinítöku úti í 20 stiga frosti. Það er enginn glamúr í því."

Kolfinna skaust hratt upp á stjörnuhimininn fyrr á árinu en ákvað að taka sér pásu um óákveðinn tíma í haust. "Ég þurfti að taka mér pásu og veit ekki hvort ég sný aftur í bransann. Mér finnst samt mjög gaman að vera svona bak við tjöldin í fyrirsætubransanum eins og ég er núna hjá Eskimo."

Uppskeruhátíð námskeiðsins verður í Kringlunni í dag. Meðal annars verður leitað að einstaklingnum með flottasta persónulega stíllinn. "Stór hluti af þessu starfi er að vera trúr sjálfum sér í einu og öllu, meðal annars í klæðaburði," segir Kolfinna og hvetur alla til að mæta.

Dagskráin hefst klukkan 13 en ásamt Kolfinnu ætla þau Helgi Ómars, ljósmyndari og tískubloggari á Trendnet, Tinna Aðalbjörns stílisti, Ásgrímur Már fatahönnuður og Ísak Freyr förðunarfræðingur að skera út um hver sé með flottasta persónulega stílinn og veita vegleg verðlaun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.