Innlent

Nauðgari nýtti sér ölvunarástand fórnarlambs

Atvikið átti sér stað á Akureyri.
Atvikið átti sér stað á Akureyri. MYND/VILHELM
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Norðurlands Eystra yfir Jóhanni Inga Gunnarssyni, 27 ára, sem sakfelldur var fyrir að hafa nauðgað konu í júní á síðasta ári. Hann var ákærður fyrir nauðgun og að hafa nýtt sér sér það að konan gat ekki spornað við verknaðinum vegna svefndrunga og ölvunar.

Þannig stendur dómur héraðsdóms um refsingu eða tveggja ára fangelsi. Þá skal Jóhann einnig greiða sakar- og áfrýjunarkostnað, ásamt því að greiða fórnarlambi sínu eina milljón krónur í miskabætur með vöxtum.

Hæstiréttur taldi framburð fórnarlambsins trúverðugan en framburður ákærða var að sama skapi talin ótrúverðugur.

Jóhann viðurkenndi að hafa haft samfarir við konuna en ber við að hún hafi verið vakandi og að samfarirnar hafi farið fram með fullum vilja og samþykki hennar. Sjálf kvaðst hún hafa sofið en vaknað við það að höfuð hennar hafi slegist reglubundið í vegg eða rúmgafl við atgang ákærða, eins og segir í dómi Hæstaréttar.

Fyrir Hæstarétti sagði sálfræðingur konunnar að hún hefði sætt meðferð vegna alvarlegra afleiðinga sem þetta atvik hafði á heilsu hennar. Í vottorði sálfræðings kemur fram að meðferðinni verði haldið áfram, en hvorki sé unnt að segja með vissu hve langan tíma hún muni taka né hvort bati náist.

Því var Jóhanni skipað að greiða fórnarlambi sínu ein milljón krónur í miskabætur. En hann var einnig dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar, eins og áður segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×