Lífið

Lærðu að meta lífið upp á nýtt

"Þetta er ekki flókið, gera það sem hjartað segir manni og gefast aldrei upp."
"Þetta er ekki flókið, gera það sem hjartað segir manni og gefast aldrei upp."
Þau deila ekki bara ástríðunni fyrir tískunni og vinna saman heldur eru þau hjón. Hjón sem hafa gengið í gegnum ýmsar raunir að undanförnu, bæði erfiðar og ánægjulegar. Má þar nefna brjóstakrabbamein, bróðurmissi og óvænta komu dóttur þeirra í heiminn. Þrátt fyrir allt standa þau með báðar fætur á jörðinni og fagna nú nýrri hönnun sinni, Freebird, sem á hug þeirra allan um þessar mundir.

Lífið hitti hjónin Gunna og Kollu.

Gunnar Hilmarsson / Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir

Aldur: 41 og 43

Börn: Alexander Hugo, Gabríela Tara og Isabel Mía

Starf: Hönnuðir



Hvar og hvenær kynntust þið?

K: Í Kringlunni, urðum ástfangin í röð kaffitíma og hádegisverða …

G: Við kynntumst í Kringlunni, ég vann í Hanz en Kolla í Sautján hinum megin við ganginn. Horfði á hana í tvö ár áður en ég þorði að tala við hana. Var alveg bálskotinn í henni.

Erum við að tala um ást við fyrstu sýn?

K: Ég er ekki týpan sem verður ástfangin við fyrstu sýn.

G: Já, hjá mér allavega enda Kolla alger skvísa.

Tískan alltaf í kortunum

Hvenær hófst ykkar samstarf fyrst?

K: Með GK 1997.

G: Formlega 1997 með opnun á GK Reykjavík en það byrjaði um leið og við hittumst.

Af hverju kusuð þið að starfa í tískugeiranum?

K: Það var alltaf í kortunum.

G: Af einskærri ástríðu.

Hefur alltaf gengið vel að vinna saman/aldrei neinir árekstrar?

K: Það fer okkur afar vel að vinna saman. Erum ótrúlega samrýnd. Líka undir álagi sem er nóg af hjá okkur.

G: Já, okkur hefur gengið fáránlega vel að vinna saman. Aldrei vesen, bara ánægja.

Stanslaus vinna að vera hönnuður

Ef þið stiklið á stóru á ferlinum, hvað stendur upp úr eða hvaða verkefni eru ykkur kærust?

K: Mér finnst gaman að gera brúðar­kjóla, sérpantanir. Það er stressandi og spennandi á sama tíma en svo einstakt að taka þátt í svona stórum augnablikum annarra.

G: Fyrstu vikur Freebird standa upp úr. Ótrúlega spennandi verkefni. GK-árin voru líka mjög skemmtileg. Við vorum ung og græn og gerðum hlutina eingöngu frá hjartanu. Það er svo heiðarleg leið til að nálgast verkefnin.

Hvað hafið þið lært af reynslunni undanfarin ár og hvernig nýtið þið ykkur lærdóminn?

K: Að fara aldrei á taugum. Anda inn og út og spyrja sig eins hreint og hægt er: „Hvað á ég að gera?" Lausnirnar koma alltaf.

G: Já, klárlega. Við gerum hlutina betur. Erum faglegri og gerum meiri kröfur til okkar sem og annara. Sættum okkur ekki við neitt nema gott. Að lifa af sem hönnuður er mikil vinna. Stanslaus vinna.

Röð áfalla

Þið hafið tekist á við svolítið persónulegri verkefni undan­farið, bæði erfið og ánægjuleg. Þú greindist með brjóstakrabbamein, misstir bróður þinn Loft Gunnarsson, sonur ykkar veiktist og þið eignuðust dásamlega dóttur á svipuðum tíma. Hvernig líður þér í dag með lífið og tilveruna og hvernig er heilsan?

K: Heilsan er góð enda vel fylgst með manni. Að greinast með krabbamein var það fyrsta í röð áfalla á árinu. Við það að missa bróður sinn og þegar elsta barnið veikist þá lærir maður að vera ómetanlega þakklátur fyrir lífið og að fá Isabel Míu í fangið nokkrum dögum áður en Loftur bróðir dó var einstakt á erfiðum tíma. Það minnir okkur á hvað lífið er mikil gjöf sem ber að fara vel með.

Hefur þessi tími breytt viðhorfi ykkar og lífsstíl?

G: Það hljómar eins og frasi en maður lærir að meta lífið upp á nýtt og það sem maður á og hvað skiptir máli og hvað ekki. Liðnir dagar koma aldrei aftur. Sama hversu góðir eða slæmir þeir voru. Dagurinn í dag er það sem skiptir máli. Maður þarf að spyrja sjálfan sig; er ég að eyða mínum dýrmæta tíma í það sem gefur mér mest? Ef svarið er nei þá þarf maður að breyta sínu lífi. Dóttirin mætti í heiminn svona líka óvænt og er mikil guðsgjöf í alla staði. Fáránlega mikil krúttsprengja.

Fjölskyldulíf er sameiginlegt verkefni allra



Hver er helsti munurinn á því að verða foreldri núna komin yfir fertugt og þegar þið áttuð ykkar fyrsta barn fyrir sextán árum?

K: Börn eru það dásamlegasta sem lífið færir manni. Með aldrinum öðlast maður meiri visku og ró og það hefur áhrif á mann sem foreldri. Að ala upp einstaklinga er mikið ábyrgðarhlutverk.

G: Það er mikill munur að eiga barn 25 ára eða 40 ára. Það er dásamlegt að eiga börn ungur en þá tekur maður hlutunum meira sem sjálfsögðum. Núna er það alls ekki svo. Nú veit maður virkilega hversu dýrmætt það er að fá að eignast barn.

Hvernig gengur barna­uppeldið samhliða starfinu? Eruð þið skipulögð þegar kemur að vinnu og starfi og leyfið þið ykkur að njóta stundarinnar saman án barna og án þess að ræða vinnuna?

K: Ég er mjög skipulögð, einum of segir Gunni. Verkin skiptast nú jafnt á okkar heimili enda fjölskyldulíf sameiginlegt verkefni allra. Við höfum alltaf gefið okkur góðan tíma yfir kaffibolla á kaffihúsum til að ræða málin, skoða fólk og tímarit og leyfa huganum að reika.

G: Það hafa alltaf komið hjá okkur geðveikar tarnir þar sem öll tilveran er eitt samfellt tímaspan. Við reynum samt að hafa kvöldin án vinnu en tekst það allt of sjaldan. Þar sem við teiknum bæði þá er ekki mikil skipting í sjálfu sér í vinnunni. Við vinnum yfirleitt heima svo að þetta er eitt samfellt streymi af öllu í einu. Teikna, hjálpa við nám, setja í vél, elda kjötbollur og allt það …

Stolt af útkomunni

En að nýja og fallega verkefninu ykkar. Segið okkur allt um tilkomu merkisins Freebird og hugmyndina á bak við það.

K: Ég er venjulega þannig að ég vil góðan tíma til að hugsa hvort við eigum að fara út í verkefnin en ég var viss um að Freebird var eitthvað sem við vildum gera. Þurfti ekki að hugsa mig um lengi. Þetta er svo fallegt merki sem búið er að skapa og tækifærið svo mikið. Við munum taka okkur tíma til að gera þetta vel enda liggur okkur nákvæmlega ekkert á. Ég stefni á að leyfa mér að njóta hverrar mínútu.

G: Ég hef verið og er að vinna fyrir E-label en fyrir nokkrum vikum þá hafði fyrirtæki í New York samband við okkur og bauð okkur að gera nýja línu algerlega á okkar forsendum. Við höfðum verið með nafnið Freebird á flögri í nokkurn tíma og við ákváðum að slá til. Við vorum strax farin að sakna þess að vinna saman og þetta hefur gengið hratt og við erum stolt af útkomunni. Þetta er mjög fallegt merki og stendur fyrir allt sem við viljum gera.

Hvar munu íslenskar konur getað nálgast fatnaðinn?

K: Í uppáhaldsbúðinni minni, Tiia á Laugavegi, og á Freebird-vefnum.

G: Í dásamlegu búðinni Tiia á Laugavegi 46 og á www.freebird­clothes.com. Næstu daga verður hægt að kaupa sérvöld item úr vor 2013 Freebird-línunni á www.freebirdclothes.com sem eingöngu eru framleidd 20 stykki af fyrir Ísland. Fleiri stykki koma ekki. Þessi örfáu stykki verða send beint heim til viðskiptavina fyrir jól svo að það verða konur í fallegum Freebird-hlutum um jólin. Það er góð tilhugsun. Fyrstir koma fyrstir fá …

Í hverju felst vinna þín með E-label, Gunni?

G: Hún gengur út á að taka merkið í gegn, hanna nýjar línur, byggja upp teymi og koma merkinu á erlendan markað sem og koma því á góðan stað á heimamarkaði. Eigandi E-label, Jón Ólafsson, hefur mjög fagra sýn um fyrirtækið sem ég er hrifinn af og mun framfylgja. Sýnin er að E-label verði gróðrarstöð fyrir nýja hönnuði og gefa nýju fólki tækifæri til góðra verka og til að læra. Fleiri mættu hugsa svona.

Hæfileikaríkir en reynslulitlir hönnuðir

Hvar standa íslenskir hönnuðir í dag að ykkar mati og hvernig er fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk að leggja í þennan heim?

K: Hér er mikið af góðu fólki en vantar reynslu. Það eru margir sem átta sig ekki á hvaða fórnir þarf að færa til að geta gert línu eftir línu sem stenst alþjóðlega samkeppni. Það má ekki missa úr dag í sköpuninni. Þá fer lestin fram hjá.

G: Þeir standa nokkuð vel. Mikil þróun hefur verið síðustu árin og fyrir ungt fólk eru sömu tækifæri og fyrir hvern sem er. Heimurinn er minni en hann lítur út fyrir að vera. Ógnin er reynsluleysið.

Eitthvað að lokum?

K: Að vera samkvæmur sjálfum sér og sáttur í eigin skinni. Það er útgangspunktur alls í lífinu.

G: Ég er með tvö húðflúr með mínum möntrum, „Keep walking" og „March to the beat of your own drum". Ég lifi eftir þeim. Þetta er ekki flókið, gera það sem hjartað segir manni og gefast aldrei upp.

Samrýmd og falleg hjón þau Gunni og Kolla.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.