Innlent

Ætla að styrkja Kvikmyndasjóð og uppbyggingu ferðamannastaða

Svartur á leik er meðal þeirra íslensku kvikmynda sem fékk stuðning frá Kvikmyndasjóði.
Svartur á leik er meðal þeirra íslensku kvikmynda sem fékk stuðning frá Kvikmyndasjóði.
Fjárfestingaráætlun ríkisins var kynnt í dag en ríkið mun leggja 6,2 miljarða í fjárfestingaáætlunina á næsta ári. Fjármagn til fjárfestingaáætlunar fyrir árin 2013-2015 hefur verið tryggt samkvæmt tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en áætlunin var lögð fram með fyrirvara um fjármögnun síðasta vor.

Á blaðamannafundi í morgun kynntu fjármála- og efnahagsráðherra og varaformenn stjórnarflokkanna verkefni fyrir rúma sex milljarða króna sem fá viðbótarfjármagn á fjárlögum til að skapa störf og efla fjárfestingu og vaxandi atvinnugreinar.

Þessi nýju verkefni koma til viðbótar fjármagni til samgöngubóta, nýsköpunar og rannsóknasjóða og sóknaráætlana landshluta sem veitt var í fjárfestingaráætlun í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og fjármagnað var með tekjum af veiðigjöldum.

Alls verður því yfir 10 milljörðum króna varið til verkefna á árinu 2013, í samræmi við fjárfestingaáætlun fyrir Ísland samkvæmt tilkynningunni.

Þegar áætlunin er skoðuð má sjá að ríkið ætlar að auka framlög til Kvikmyndasjóðs um tæplega hálfan milljarða en verulega var skorið niður á þeim vettvangi fyrir nokkrum árum þrátt fyrir mikil mótmæli kvikmyndaiðnarins.

Þá má einnig finna nýjan lið í áætluninni sem heitir Græna hagkerfið. Þær hugmyndir kosta rétt rúman milljarð. Mest fer í græna fjárfestingasjóðinn, en það verður hálfur milljarður. Þá verða 280 milljónum varið í lið sem heitir grænt hagkerfi og grænkun fyrirtækja.

Að lokum verður hálfum milljarði veitt í uppbyggingu ferðamannastaða en allnokkur umræða hefur verið um aðgengi ýmissa staða síðastliðin ár enda ágangur ferðamanna á helstu ferðmannastaði Íslands orðinn verulegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×