Innlent

Ernir hyggst hætta áætlunarflugi til minni staða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Flugfélagið Ernir.
Flugfélagið Ernir. Mynd/ Óskar
Forsvarsmenn flugfélagsins Ernis stefna á að hætta öllu áætlunarflugi til minni áfangastaða á Íslandi. Þetta staðfestir Hörður Guðmundsson, forstjóri félagsins, í samtali við fréttastofu. Flugfélagið hefur hingað til flogið til Húsavíkur og Vestmannaeyja, en einnig á minni áfangastaði eins og á Höfn í Hornafirði, Bíldudals og Gjögur.

Flugfélagið er með verksamning við Vegagerðina um að halda uppi áætlunarflugi á minni staðina. Hörður segir að greiðslur hafi ekki haldið í við verðlagsþróun frá bankahruni og því sé orðið tap á starfseminni. Flugfélagið mun halda áfram verkefnum sem það hefur erlendis og verkefnum tengdum sjúkraflugi og mun að öllum líkindum líka halda áfram að fljúga til Vestmannaeyja og Húsavíkur.

Það er ekki til að bæta á rekstrarstöðu Ernis að félagið skuldar ISAVIA um 20 milljónir vegna þjónustu á flugvellinum Húsavík. Hörður segir þó að sú skuld væri vel viðráðanleg ef tekjur frá ríkinu fylgdu verðlagsþróuninni.

„Vonandi vekur þetta stjórnvöld til umhugsunar um hvað þarf að gera. það er hægt að veita 400 milljonum króna í að dæla sandi í Landeyjarhöfn og skipið kemur ekki til með að sigla þangað. Af hverju ekki að nota eitthvað af þessum aurum til þess að styrkja aðrar samgöngur frekar," segir hann.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×