Innlent

Annar mannanna var reyndur flugmaður

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mynd/Víkurfréttir
Annar flugmannanna sem lést við brotlendingu fisflugvélar á Njarðvíkurheiði í gær var reyndur flugmaður. Rannsóknarnefnd flugslysa og rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum voru á vettvangi í sex klukkustundir í gær en eru engu nær um orsakir slyssins.

Fisflugvélin brotlenti á Njarðvíkurheiði rétt hjá fisflugvellinum Sléttu skammt frá Seltjörn á Reykjanesi í gær en tveir flugmenn voru um borð og talið er að báðir hafi látist samstundis er vélin brotlenti.

Fisvélar eru mjög léttar flugvélar, en eru mótorknúnar, ólíkt svifflugvélum. Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið kl. tuttugu mínútur yfir þrjú í gær. Teymi frá bæði lögreglunni og rannsóknardeild flugslysa voru á vettvangi í tæpar sex klukkustundir og var flak vélarinnar síðan flutt til Reykjavíkur til frekari athugunar. Annar mannanna er um sextugt og hinn er á fertugsaldri. Annar flugmannanna, sá eldri, var mjög reyndur flugmaður.

Ragnar Guðmundsson rannsakandi hjá rannsóknarnefnd flugslysa kom á vettvang stuttu eftir að vélin brotlenti.

Er eitthvað vitað um orsakir slyssins?

„Nei enn sem komið er vitum við ekki um orsakir slyssins," segir Ragnar.

Hvernig voru aðstæðurnar þegar þið komuð á vettvang?

„Aðstæður voru mjög slæmar. Vélin var mjög skemmd. Búið var að taka mennina úr flakinu og reyna lífgunartilraunir sem báru ekki árangur," segir Ragnar.

Það er talið að þeir hafi látist nærri samstundis þegar vélin brotlenti?

„Já," svarar Ragnar.

Ragnar segir að merkja megi aukningu í vélarbilunum og slysum á fisvélum, en það megi líklega rekja til þess að slíkar vélar hafi notið vaxandi vinsælda á liðnum árum. Hann segir að aðstæður til flugs hafi verið mjög góðar í gær.

„Það voru mjög góðar aðstæður. Það var svona hægur andvari að austan en mjög fínar aðstæður til flugs," segir Ragnar.

Engar vísbendingar eru um að mennirnir hafi reynt að senda neyðarkall eða verið í sambandi við flugturn áður en slysið varð.

„Nú er vettvangsrannsókn lokið. Við erum að fara af stað með frumrannsóknina. Hún getur tekið nokkrar vikur og upp í einn til þrjá mánuði. Það er erfitt að segja. Það fer bara eftir umfangi rannsóknarinnar," segir Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd flugslysa.


Tengdar fréttir

Alvarlegt flugslys á Suðurnesjum

Lítil fisvél brotlenti rétt sunnan við Seltjörn á Njarðvíkurheiði. Tveir menn voru um borð. Lögreglumenn eru á vettvangi en tilkynnt var um slysið klukkan rúmlega þrjú í dag.

Tveir létust í flugslysi á Suðurnesjum

Lítil fisflugvél brotlenti skammt frá fisflugvellinum Sléttu sunnan við Seltjörn á Njarðvíkurheiði. Tveir menn voru í vélinni og voru þeir báðir úrskurðaðir látnir á vettvangi.

Engu nær um orsakir flugslyssins

Rannsóknardeild flugslysa og rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum eru engu nær um hvað orsakaði flugslys þegar fisflugvél brotlenti á Njarðvíkurheiði skammt frá Seltjörn á Reykjanesi í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×