Innlent

Skortur á stefnu og pólitísk átök skemmdu fyrir Orkuveitunni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur. Stjórnmálamenn sem sátu í stjórn fyrirtækisins fá ekki mildan dóm í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi þess.
Orkuveita Reykjavíkur. Stjórnmálamenn sem sátu í stjórn fyrirtækisins fá ekki mildan dóm í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi þess.
Skortur á skýrri eigendastefnu hjá Orkuveitu Reykjavíkur, innbyrðis átök um um stjórn fyrirtækisins og of mikil völd forstjóra, var meðal þess sem var einkennandi fyrir rekstur Orkuveitunnar áður en fyrirtækið lenti í brimskafli skuldavanda. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu úttektarnefndarinnar. Þá er pólitísk umræðuhefð í stjórn fyrirtækisins gagnrýnd.

Eftir að nýr meirihluti tók við í borgarstjórn Reykjavíkur og fyrir lá að ráðst þyrfti á meiriháttar endurskipulagningu á fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur vegna skuldavanda fyrirtækisins, með tilheyrandi sársaukafullum aðgerðum eins og uppsögnum starfsmanna og hækkun gjaldskrár, var ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að vinna skýrslu um starfsemi Orkuveitunnar á síðastliðnum árum til að greina orsakir vanda fyrirtækisins.

Skýrsla úttektarnefndarinnar kom út í dag og er mikil að vöxtum, eða 568 bls. að lengd.

Meginniðurstöður skýrslunnar eru býsna skorinortar. Þar segir að fjárhagserfiðleika Orkuveitu Reykjavíkur megi að „miklu leyti rekja til mikilla fjárfestinga og fjár­frekra framkvæmda á skömmum tíma, hárra arðgreiðslna og tregðu eigenda að hækka gjaldskrár í samræmi við verðlagsþróun, auk gríðarlegs gengistaps."

Þá segir að „í ljósi skorts á skýrri eigendastefnu og deilna um hana, telur úttektarnefnd­in að forstjóri hafi haft mikið ráðrúm til að móta og ákveða, hvernig fyrir­tækið ætti að þróast og hvernig ætti að stýra fjárfestingum þess."

Stjórnmálamenn og pólítísk umræðuhefð skemmdu fyrir

Þá er pólitísk umræðuhefð í stjórn fyrirtækisins gagnrýnd, en í skýrslunni segir:

„Þá virðast stjórnmálamenn hafa flutt með sér þá umræðuhefð sem tíðkast í borgarstjórn og borgarráðum, og myndað skýran minnihluta og meirihluta stjórnar, sem er óhefðbundið í rekstri fyrirtækja."

Þá er rakið að ýmsar meiriháttar ákvarðanir hafi ekki verið bornar undir stjórn nema með mjög skömmum fyrirvara. Í skýrslunni er lagt til að stjórn fyrirtækisins verði eingöngu skipuð öðrum en kjörn­um fulltrúum sveitarfélaga, fólki sem hefur reynslu og eða þekkingu á málefnasviðum fyrirtækisins og rekstri, ólíkt því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast.

Taldi sig ekki þurfa að leita álits eiganda

Þá er í skýrslunni harðlega gagnrýnt að stjórnendur fyrirtækisins hafi rekið það sem sjálfstætt félag og ekki talið sig þurfa að leita til eiganda síns, Reykjavíkurborgar, nema í tilvikum þar sem um var að ræða skuldbindingar umfram 5% af höfuðstól fyrirtækisins. Í skýrslunni segir: „Þetta viðhorf gengur þvert gegn þeirri staðreynd að fyrirtækið var rekið með bakábyrgð eigenda sem reynt hefur á í starfsemi fyrirtækisins."

Misskilningur að hlutafélagavæðing leiði til sölu eigna

Þá er það niðurstaða úttektarnefndarinnar að félagsform Orkuveitunnar hafi staðið fyrirtækinu fyrir þrifum, en fyrirtækið er sameignarfélag í eigu sveitarfélaga. „Félagsform fyrirtækisins hefur staðið því fyrir þrifum vegna óskýrra reglna um vald og ábyrgð. Skoða þarf því hvort núverandi félagsform Orkuveitu Reykjavíkur henti starfsemi þess með hliðsjón af hinum umfangsmikla rekstri og flóknum viðfangsefnum þess."

Það er mat skýrsluhöfunda að hlutafélagaformið henti betur og sé þróaðra. Meðal annars vegna hinnar takmörkuðu ábyrðgar eigenda á fjárskuldbindingum, en vegna félagaformsins bera eigendur, eins og Reykjavíkurborg í dag ábyrgð á öllum skuldum Orkuveitunnar. „Í umræðu um breytingu á félagsformi hefur þess misskilnings gætt að stofnun hlutafélags leiði sjálfkrafa til sölu á eignum félagsins til einkaaðila í framtíðinni," segir í skýrslunni. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×