Innlent

Bæjarstjóri segir Heiðmerkurhugmynd áhugaverða

Hafnarfjörður eða Heiðmörk?
Hafnarfjörður eða Heiðmörk?
„Þetta er hugmynd sem er borin fram í fullri alvöru. Ég geri ráð fyrir því að við munum, í fullri alvöru, taka þetta fyrir á næsta fundi bæjarráðs," segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn, um tillögu bæjarfulltrúa Kópavogs, um að sameina Kópavog, Álftanes, Garðabæ og Hafnarfjörð í eitt sveitarfélag.

Það voru þeir Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, og Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna, sem lögðu fram tillöguna í bæjarráði Kópavogs í vikunni. Hún var samþykkt og fulltrúa gert að leita eftir viðræðum við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi um sameiningu þessara sveitarfélaga. Hugmynd kom fram í greinagerð sem fylgdi tillögunni, um að hið nýja sveitarfélag, gæti heitið Heiðmörk.

Guðrún Ágústa tekur hugmyndinni með fyrirvara og bendir á að ekki fyrir svo löngu síðan hafi komið upp sú hugmynd að sameina höfuðborgarsvæðið í eitt stórt sveitarfélag. „Niðurstaðan þar var að það ætti ekki að sameinast, heldur auka samvinnu á milli sveitarfélaga," útskýrir Guðrún.

Hún segir hugmyndina aftur á móti áhugaverða, það er að segja að sameina þessi sveitarfélög í suðri og þannig búa til borg á móti Reykjavík. „Stærri rekstrareining býður sannarlega upp á ákveðna hagkvæmni," segir Guðrún og bætir við að það verði þó að huga að bæjarmyndinni, sem hún telur að tapist ekki endilega þó þessi sveitarfélög sameinuðust.

Guðrún segir þó enga knýjandi þörf á sameiningu, ekki af hálfu Hafnarfjarðar í það minnsta, „en tillagan er áhugaverð," bætir hún við.


Tengdar fréttir

Bæjarráð Kópavogs vill búa til sveitarfélagið Heiðmörk

Bæjarfulltrúar Kópavogs, þeir Ómar Stefánsson, sem situr í bæjarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn, og Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vg, lögðu fram í vikunni tillögu þess efnis að leitast ætti eftir því að sameina Hafnarfjörð, Garðabæ, Álftanes og Kópavog í eitt sveitarfélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×