Innlent

Skiptar skoðanir um sveitarfélagið Heiðmörk

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Bæjarráð Kópavogs samþykkti í morgun að senda mann út af örkinni til þess að kanna áhugann á því í nágrannasveitarfélögum að sameinast í eitt risasveitarfélag.

Tillagan var lögð fram af bæjarfulltrúunum Ólafi Þór Gunnarssyni og Ómari Stefánssyni og gerir hún ráð fyrir að Kópavogur sameinist sveitarfélögunum til suðurs, Garðabæ, Álftanesi og Hafnarfirði. Tillagan gerir ráð fyrir að komið verði á fót viðræðunefnd allra hlutaðeigandi sem skili greinargerð í mars á næsta ári.

„Hugmyndin er sú að þessi sveitarfélög eiga mjög margt sameiginlegt í skipulagslegu tilliti mikil samlegðaráhrif, sem skiptir máli í tilliti til íbúarþróunar," segir Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG.

Með stærra sveitarfélagi væri að hans mati hægt að veita íbúum betri þjónustu á flestum sviðum.

„Næstu skrefin eru þá að við kópavogsbúar munum boða til viðræðna við sveitarfélögin fyrir sunnan," segir hann.

Og nái hugmyndin fram að ganga verður til ný borg á Íslandi og Ólafur þór er meira að segja með hugmynd að nafni.

„Já Heiðmörk er í rauninni það nafn sem gæti sameinað þessi sveitarfélög, þarna er svæði sem flest sveitarfélögin eiga land að, við eigum í góðu samstarfi um heiðmörkina og hún er okkur öllum mjög kær," segir hann.

Þegar fréttastofa hafði samband við bæjarstjóra hinna sveitarfélaganna er ljóst að hún fellur í misfrjóan jarðveg. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir segir hugmyndina áhugaverða og að hún verði rædd á næsta bæjarstjórnarfundi.

Snorri Finnlaugsson bæjarstjóri Álftaness var ekki eins spenntur og sagði að þar á bæ væru menn aðallega að hugsa um fyrirhugaða sameiningu við Garðabæ. Snorri sagði þó vel koma til greina af sinni hálfu að fækka sveitarfélögum eitthvað á svæðinu, þannig að þau yrðu til dæmis þrjú að á höfuðborgarsvæðinu.

Og Garðbæingurinn Gunnar Einarsson segir hreint út að sér lítist illa á hugmyndina. Að hans viti væri stærðin ekki hagkvæm. Þá bætti hann við í hálfkæringi að Garðbæingar myndu í það mynda setja það skilyrði að sameinað sveitarfélag fengi nafnið Garðabær en ekki Heiðmörk.


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri segir Heiðmerkurhugmynd áhugaverða

"Þetta er hugmynd sem er borin fram í fullri alvöru. Ég geri ráð fyrir því að við munum, í fullri alvöru, taka þetta fyrir á næsta fundi bæjarráðs," segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn, um tillögu bæjarfulltrúa Kópavogs, um að sameina Kópavog, Álftanes, Garðabæ og Hafnarfjörð í eitt sveitarfélag.

Bæjarráð Kópavogs vill búa til sveitarfélagið Heiðmörk

Bæjarfulltrúar Kópavogs, þeir Ómar Stefánsson, sem situr í bæjarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn, og Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vg, lögðu fram í vikunni tillögu þess efnis að leitast ætti eftir því að sameina Hafnarfjörð, Garðabæ, Álftanes og Kópavog í eitt sveitarfélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×