Innlent

Ólétt á ný eftir að hafa misst tvíbura

Erla Hlynsdóttir skrifar
Kristín Guðmundsdóttir handboltakona er ólétt á ný eftir að hafa misst tvíbura á síðasta ári. Hún sér eftir því að hafa ekki tekið ljósmyndir af tvíburunum.

Kristín er ein þeirra sem standa að minningarathöfn sem haldin verður í Hallgrímskirkju á mánudagskvöld til að minnast látinna barna.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðtal við hana þegar fréttakona fer með henni í læknisskoðun.

Kristín greindi frá því opinberlega að hún hefði fætt andvana tvíbura eftir að vera gengin með þá nítján vikur. Hún er nú ólétt á ný.

„Ég hef nú ekki tilkynnt það en fólk er aðeins farið aftur að sjá mig á handboltaleikjum og þá fattar fólk þetta. annars var ég mest heima svona fyrstu mánuðina," segir Kristín.

Og hvað ertu komin langt?

„Ég er komin tæpar 29 vikur. Ótrúlega gaman," segir Kristín.

Kristín er í auknu eftirliti eins og venjan er hjá konum sem hafa misst börn á meðgöngu. Frá því hún varð ólétt hefur hún komið nánast vikulega í læknisskoðun.

Reiknaðir þú með því að verða ólétt aftur?

„Já, ég held svona að þegar maður talar við konur í svipaðri aðstöðu þá sé mjög algengt að það sé nánast það eina sem þú getur hugsað um. Það er bara að verða ófrísk sem fyrst aftur. Það tók okkur 9-10 mánuði, sem voru náttúrulega bara erfiðir 9-10 mánuðir en það tókst á endanum. Meðgangan er búin að vera náttúrulega andlega mjög erfið og líkamlega reyndar líka en annars er þetta bara allt að smella," segir Kristín.

Á fjórtándu viku greindist hún með leghálsbilun og því er ekki ólíklegt að hún eignist barnið fyrir tímann.

En skoðun sýndi að barnið dafnar vel og hefur stækkað mikið frá síðustu skoðun.

Og hjartsláttur barnsins var hraður eins og vera ber

Kristínu leið mjög vel eftir skoðunina.

„Alltaf vel þegar skoðunin er búin, að fá að sjá hjartslátt og jafnvel sjá aðeins krílið. Það léttir alltaf á þessu andlega," segir hún.

Væntanlegur er fræðslubæklingur um barnsmissi.

„Við mælum með því að þú takir mynd af börnunum þínum. Ég tók ekki mynd af mínum og ég stórsé eftir því. Þetta er eitthvað sem þú ert ekki að hugsa um þarna. Hvernig í ósköpunum áttu að vita að þetta er eitthvað sem þig langar að gera? Og að nefna jafnvel börnin, sumir gera það. Jarða þau jafnvel," segir hún.

Alþjóðlegur minningardagur vegna missis á meðgöngu og barnsmissis verður haldinn í fyrsta skipti hér á Íslandi á mánudag.

„Þetta verður í Hallgrímskirkju, mánudaginn 15. október klukkan hálf átta. Og við bara vonumst til að sjá sem flesta," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×