Innlent

Yfir fjögur þúsund manns hafa kosið utan kjörfundar

BBI skrifar
Myndin er tekin fyrir forsetakosningarnar í sumar.
Myndin er tekin fyrir forsetakosningarnar í sumar.
Þegar hafa 4.323 einstaklingar á landinu greitt atkvæði utan kjörfundar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagaráðs. Miðað við aðrar atkvæðagreiðslur telst það ekki sérlega mikið en erfitt er að spá fyrir um endanlega kjörsókn út frá fjölda utankjörfundaratkvæða.

Af þeim 4.323 atkvæðum sem hafa skilað sér af landinu öllu voru 2.809 atkvæði greidd í Reykjavík.

Það sem af er degi hefur 31 einstaklingur greitt atkvæði í Reykjavík. Að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur, sem sér um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar, helst ásóknin nokkuð stöðug milli daga og engar raðir hafa myndast við kjörstaði eins og gerðist í forsetakosningunum í sumar. „Nei, þetta er bara ósköp eðlileg þróun. Það voru reyndar yfir 500 manns sem kusu í gær," segir hún.

Þau 2.809 atkvæði sem greidd hafa verið í Reykjavík á þessum tímapunkti eru ekki sérlega mörg miðað við aðrar atkvæðagreiðslur. Á sama tímapunkti höfðu reyndar ekki nema 1.765 manns kosið í stjórnlagaþingskosningunum. Hins vegar höfðu 5.142 kosið í Icesave kosningunum og 7.058 manns kosið í forsetakosningunum í sumar.

„Við getum náttúrlega ekki metið endanlega kjörsókn út frá utankjörfundaratkvæðum. Við vitum ekki hve mikið hlutfall kjósenda greiðir atkvæði utankjörfundar," segir Bergþóra og bendir til dæmis á að hlutfall þeirra sem greiddu atkvæði utan kjörfundar var mjög hátt í forsetakosningunum, m.a. vegna sumarleyfa.

Utankjörfundaratkvæðagreiðslan fer fram í Laugardalshöllinni sem verður opin frá klukkan tíu á morgnanna til klukkan tíu á kvöldin fram að kjördegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×