Innlent

Krefjast frávísunar al-Thani málsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hörður Felix Harðarson ásamt fulltrúum annarra verjenda við fyrirtökuna í dag.
Hörður Felix Harðarson ásamt fulltrúum annarra verjenda við fyrirtökuna í dag.
Verjendur Kaupþingsmanna í al-Thani málinu svokallaða kröfðust frávísunar við fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Enginn sakborninganna var mættur í Héraðsdóm, en Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, og fulltrúar hinna sakborninganna voru mættir til að leggja fram greinargerð í málinu. Björn Þorvaldsson saksóknari lagði í morgun fram ný gögn, annarsvegar afrit af sex símtölum úr borðsimum Kaupþings. Hins vegar nýjar þýðingar úr reglugerðarbók Kaupþings.

Málflutningur um frávísunarkröfuna fer fram þann 29. október næstkomandi og Hörður Felix vildi ekkert segja um það á þessari stundu á hvaða forsendu frávísunarkrafan væri byggð. „Það verður bara að bíða þangað til málflutningurinn fer fram, þann 29. október," sagði Hörður Felix þegar hann var spurður nánar út í málið.

al-Thani málið snýst um ákæru sérstaks saksóknara á hendur öllum helstu stjórnendum Kaupþings, þeim Sigurði Einarssyni stjórnarformanni, Hreiðari Má Sigurðssyni forstjóra, Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafi Ólafssyni, einum aðaleiganda bankans. Þeir eru sakaðir um umboðssvik og markaðsmisnoktun með því að lána félögum í eigu al-Thanis fé í eigu bankans til þess að kaupa hlut í bankanum. Þannig hafi átt að láta líta út fyrir að raunveruleg viðskipti hafi átt sér stað með hlut í bankanum og þannig átti að halda hlutabréfaverði í honum uppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×