Innlent

Grófu 150 fjár upp úr snjó

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra skipulagði nú um helgina umfangsmiklar aðgerðir, í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörgu, búnaðarráðunauta, bændur og aðrar hlutaðeigandi.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að aðgerðirnar beindust að því að gera lokaátak við að finna sauðfé sem hafði hrakist og grafist í snjó í óveðrinu sem gekk yfir landið 9. og 10. september síðastliðinn. Ríkisstjórnin veitt fjármunum í verkefnið til að þetta væri framkvæmanlegt.

Yfir hundrað björgunarsveitarmenn aðstoðuðu fjölda bænda við leit og smölun allt frá Húnavatnssýslum í vestri og austur í Kelduhverfi. Við aðgerðirnar voru notaðir fjöldi björgunarsveitarbíla, fjór- og sexshjól, vélsleðar, snjóbílar, þyrla Landhelgisgæslunnar auk flugvéla í einkaeigu.

Aðgerðirnar gengu vel og var um 150 lifandi fjár grafið uppúr snjó og auk þess fundust og var komið til byggða miklum fjölda fjár sem hrakist hafði undan veðrinu. Fjöldi fjár fannst einnig dautt. Vel gekk að koma lifandi fé til byggða og lauk skipulögðum aðgerðum í ljósaskiptunum í gærkvöldi.

Nú á næstu dögum mun koma í ljós hversu margt fé hefur ekki skilað sér og þá verður hægt að fara að gera grein fyrir því tjóni sem bændur hafa orðið fyrir.

Með þessu átaki lauk skipulagðri leit og björgun sauðfjár en bændur munu áfram svipast um eftir fé eftir því sem aðstæður leyfa.

Það fé sem fannst á lífi grafið í snjó nú þrem vikum eftir óveðrið var margt í ágætu ástandi en inná milli var töluvert um veikburða fé.

Ríkislögreglustjóri þakkar þeim fjölmörgu sem hafa komið að aðgerðunum á síðustu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×