Innlent

Heildarupphæð barnabóta hækkar um 30%

GRV skrifar
Oddný Harðardóttir yfirgefur ríkisráðsfund í dag.
Oddný Harðardóttir yfirgefur ríkisráðsfund í dag.
Síðasta embættisverk Oddnýjar Harðardóttur á stóli fjármálaráðherra var að kynna breytingar á barnabótakerfinu en á Ríkisráðsfundi nú rétt fyrir hádegið tók Katrín Júlíusdóttir við ráðuneytinu af Oddnýju. Heildarupphæð bótanna hækkar um þrjátíu prósent og tekjuskerðingarmörk hækka einnig.

Oddný kynnti breytingarnar í morgun en með þeim er að hennar sögn verið að mæta ákalli um hækkun bótanna, en fjárhæð barnabóta eða tekjuskerðingarmörk hafa ekki tekið neinum breytingum frá árinu 2009. Á sama tíma hefur tekjufall og skuldaaukning landsmanna ekki síst bitnað á barnafjölskyldum.

„Og því erum við að mæta með því að hækka upphæðina sem við verjum til barnabóta um þrjátíu prósent. Við hækkum bætur en við teygjum líka upp á tekjuásnum þannig að það eru fleiri sem fá óskertar bætur við þessa breytingu."

Oddný segir að kostnaðurinn við breytingarnar sé 10,8 milljarðar á næsta ári en breytingarnar eiga að taka gildi í byrjun næsta árs. Viðbót vegna barna yngri en sjö ára hækkar um tæpar fjörutíu þúsund krónur og verður hundrað þúsund.

Þá hækka tekjuskerðingarmörk einhleypra foreldra upp í tvær komma fjórar milljónir og hjá foreldrum í sambúð fara mörkin upp í fjórar komma átta milljónir. Tillagan hefur þegar verið samþykkt í ríkisstjórn og næsta skref er að leggja frumvarp þessa efnis fyrir Alþingi.

Að sögn Oddnýjar er þó aðeins um ákveðinn millileik að ræða, framtíðarsýn núverandi Ríkisstjórnar sé að koma á fót nýju kerfi barnatrygginga. „Framtíðarsýnin er auðvitað sú að barnabætur verði ótekjutengdar, við erum ekki komin þangað, en þangað eigum við að stefna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×