Innlent

Þjófóttar mæðgur með allt of vægan dóm

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Úr Kringlunni. Mæðgurnar stálu munum fyrir margar milljónir króna.
Úr Kringlunni. Mæðgurnar stálu munum fyrir margar milljónir króna.
Dómur yfir þjófóttum mæðgum sem voru dæmdar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag er allt of vægur að mati Samtaka verslunar og þjónustu. Mæðgurnar voru dæmdar fyrir ítrekaðan þjófnað og verðmæti varanna sem þær stálu hljóp á milljónum.

Eldri konan sem var dæmd, hlaut fimmtán mánaða fangelsisdóm, þar af voru tólf skilorðsbundnir. Sú yngri hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Verslunum sem stolið var frá voru ekki dæmdar bætur. „Þetta kemur okkur mjög spánskt fyrir sjónir enda höfðum við talið að það hefði átt að fallast á bótakröfur og líka að refsingin hefði átt að vera meira fyrirbyggjandi fyrir síðari tíma atvik," segir Lárus Ólafsson lögmaður SVÞ í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hann segir að með dómnum séu send veik skilaboð út í samfélagið.

„Okkur sýnist varnaðaráhrifin vera engin og það versta er að þetta er ekkert einsdæmi. Við höfum tekið eftir því að dómar hvað varðar þjófnaði úr verslunum eru ansi skrautlegir. Það hefur verið vísað frá kröfum og svo koll af kolli þannig að þetta er ekki einsdæmi," segir Lárus. Hann segir að ástæðurnar fyrir því hve illa gengur að fá greiddar bætur séu einkum þær að sönnunin hvíli á tjónþolanum og það virðist vera vandamál að koma þessum kröfum inni í ákærur og fá þær dæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×