Innlent

Strætóbílstjóri sakaður um glæfraakstur - Börn á slysadeild

GS skrifar
Það ræðst í dag hvort óskað verður lögreglurannsóknar á meintum glæfraakstri strætóbílstjóra í gær, þar sem fimm leikskólabörn meiddust og gera þurfti að meiðslum tveggja þeirra á slysadeild.

Hátt í 20 fimm ára börn úr leikskólanum Hulduheimum í Grafarvogi voru að fara á milli staða í strætó, eins og gengur, en að sögn heimilda fréttastofu ók ökumaðurinn, sem var kona í þessu tilviki, óvenju glannalega, allt til þess að hún nam svo harkalega staðar á endastöð barnanna, að mörg þeirra köstuðust fram úr sætum sínum, enda engin öryggisbelti í strætó. Við það meiddust fimm börn og þurfti að flytja tvö þeirra á slysadeild til að fá gert að sárum þeirra, án þess að þau teldust þó alvarlega slösuð.

Við atvikið urðu börnin skelfingu lostin og fóru mörg að gráta þannig að þau voru óvenju sein út úr vagninum. Að sögn heimildar fréttastofu gerðist vagnstjórinn þá óþolinmóður, sem jók enn á hræðslu barnanna auk þess sem starfsfólki var illa brugðið. Deildarstjóri í leikskólanum kom formlegum athugasemdum á framfæri við Strætó í gær, en eftir því sem fram kom á foreldrafundi í gærkvöldi, þar sem foreldrar voru áhyggjufullir vegna þessa, barst engin afsökunarbeiðni eða önnur viðbrögð frá Strætó. Bryndís Markúsdóttir leikskólastjóri á Hulduheimum staðfesti við Fréttastofu að börn úr skólanum hefðu meiðst í strætó í gær, og í dag yrði farið yfir málið með viðeigandi yfirvöldum skólamála í borginni. Að því loknu réðist hvert framhald máslins yrði, til dæmis hvort farið yrði fram á lögreglurannsókn. Ekki náðist í Reyni Jónsson forstjóra Strætó við vinnslu fréttarinnar í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×