Innlent

Segir mistök að hafa ákært Geir Haarde einan

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það voru mistök að ákæra Geir Haarde einan, í stað þess að ákæra líka Björgvin G. Sigurðsson, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Mathiesen. Þetta segir Pieter Omtzigt, sem lagði fram minnisblað í laganefnd Evrópuráðsþingsins, í dag. Omtzigt hefur skoðað réttarhöldin um nokkurra mánaða skeið og kom meðal annars hingað til lands í vor vegna þess. Meginniðurstaða hans er sú að ekki hafi átt að sækja Geir til saka. Hann hefði átt að sæta annarskonar ábyrgð.

Omtzigt segir að íslensk stjórnvöld hafi reynt að láta heiðarleg réttarhöld fara fram en það hafi ekki tekist. „Það voru of mikil pólitísk áhrif á réttarhöldin," segir hann. „Þingið ákvað að ákæra einn í stað annarra þriggja, þvert á ráðleggingar. Það voru því of mikil pólitísk áhrif sem lítur ekki vel út," segir Omtzigt.

Hann segir að ekki hafi átt að láta fara fram sakamálaréttarhöld í tilfelli Geirs, eins og gert var. „Sakamálaréttarhöld eiga við þegar glæpsamleg vanræksla eða einbeittur brotavilji á sér stað," segir hann. En pólitíkusar taki oft erfiðar ákvarðanir þar sem ekki er vitað hver niðurstaðan verður. „Svo lengi sem þeir eru heiðarlegir í ákvarðanatöku ættu þeir að sæta pólitískri ábyrgð en ekki svara til saka," segir Omtzigt.

Öðru gegni þegar mannslíf eru í hættu og ráðherra skýtur skollaeyrum við. „Í tilfelli Íslands gæti það verið ef eldgos yrði og ráðherra veit það en hann neitar að grípa til aðgerða til að rýma hættusvæðið," segir Omtzigt.

Horfa má á ítarlegt viðtal við Omtzigt með því að smella á hlekkinn „Horfa á myndskeið með frétt" en athugið að viðtalið er óklippt og ótextað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×