Innlent

Tæplega 300 hafa fengið nýtt líffæri á fjórum áratugum

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Tæplega þrjúhundruð Íslendingar hafa fengið nýtt líffæri frá því að líffæraígræðslur hófust fyrir rúmum fjórum áratugum. Sjötíu prósent líffæraþeganna er á lífi í dag.

Fyrsti íslenski líffæraþeginn fékk ígrætt nýra frá lifandi gjafa í London árið 1970. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag eru íslensku þegarnir orðnir 280.

Þar af fóru tvöhundruð sextíu og fjórir í líffæraígræðslu á árunum 1970 til 2011. Ellefu Íslendingar fengu nýtt hjarta þar af fór einn í tvær hjartaígræðslur. Ellefu fengu ný lungu og fjórir bæði hjarta og lungu. Tvöhundruð tuttugu og sjö nýru voru grædd í tvöhundruð og einn Íslending en þar af fengu 137 nýra eða nýru frá lifandi gjafa. Þá voru framkvæmdar fjörutíu og tvær lifraígræðslur í þrjátíu og sjö sjúklinga en þar af fengu þrjú börn lifur frá lifandi gjafa.

Það sem af er þessu ári hafa sextán Íslendingar fengið nýtt líffæri. Einn fékk hjarta, tveir lungu, tveir lifur og ellefu fóru í nýrnaígræðslu, en þar af fengu þrír nýru eða nýra frá lifandi gjafa.

Af þessum tvöhundruð og áttatíu Íslendingum eru hundrað níutíu og fjórir á lífi í dag, eða rétt tæplega sjötíu prósent allra íslenskra líffæraþega.

Vaxandi eftirspurn er eftir líffærum til ígræðslu en á fimmta tug Íslendinga vantar nýtt eða ný líffæri í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×