Innlent

„Get varla hætt að knúsa hann“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Borghildur og Brynjar.
Borghildur og Brynjar. samsett mynd
Brynjar Mettinisson er laus úr fangelsi í Taílandi. Hann var ánægður en dofinn þegar hann hitti fjölskyldu sína í morgun. Brynjar var sofandi í aftursætinu hjá móður sinni þegar fréttastofa hafði samband við hana rétt fyrir hádegi í dag.

Brynjar sat saklaus í fangelsi í rúmt ár, ákærður fyrir fíkniefnabrot. Tveir mánuðir eru síðan hann var sýknaður. Brynjar lenti á Kastrup-flugvelli í morgun. Móðir hans, Borghildur Antonsdóttir, var fegin að fá son sinn aftur.

„Þetta er alveg dásamleg tilfinning, þetta er svo ótrúlegt, ég gat bara varla hætt að knúsa hann," segir hún. Og tekur fram að hún hafi aldrei misst trúna.

„Ég sagði það frá byrjun að hann væri saklaus og að hann myndi koma heim."

Borghildur og Daníel, bróðir Brynjars, sóttu hann á flugvöllinn og voru þau á leiðinni heim til Svíþjóðar þegar við náðum tali af henni. En Brynjar var ekki til viðræðu.

„Nei, hann var mjög þreyttur og lagði sig bara í aftursætinu. Við erum hérna frammí, ég og Daníel."

Og hvernig leið honum þegar hann hitti þig?

„Hann var náttúrulega rosalega ánægður en hann trúir þessu ekki almennilega. Þetta er voða skrýtið fyrir hann að vera allt í einu frjáls og geta hreyft sig og strokið um hár sér."

Í hvaða ásigkomulagið er hann? „Það er voðalega erfitt að segja til um það akkúrat núna en hann var glaður og svolítið dofinn sagði hann. Það kemur bara í ljós í hvernig ástandi hann er í."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×