Innlent

Vonar að um barnaskap hafi verið að ræða

„Við skulum nú vona að þarna sé um barnaskap að ræða, að þarna hafi komið krakkar og farið í vagninn og gert þetta í fyllsta sakleysi," segir Herdís Storgaard, sérfræðingur í öryggi barna, um það mál þegar barnavagn, með fjórtán mánaða gömlu barni var fjarlægt frá heimili sínu og skilið eftir í nágrannagarði. Vísir greindi frá málinu í dag. Herdís tók fram í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni að hún þekkti ekki umrætt mál til að tjá sig neitt nánar um það.

Hins vegar sagði hún almennt að það þyrfti alltaf að gæta barna í barnavögnum. „Því það getur ýmislegt gerst, vagnar geta fokið á hliðina, krakkar hafa verið að kíkja á vagna, velt þeim um koll og ekki látið vita. Og það eru náttúrulega dýr sem ganga um laus, svo sem kettir," segir Herdís.

Hún segir að það sé algengt á Norðurlöndum að börn séu látin sofa úti. Þar sé mikið gert af því að börn sofi úti. „Það eru deildar meiningar um ágæti þessa," segir hún. Herdís segir þó að börnin sofi mjög vel úti í köldu lofti. „Líkamsstarfsemin hægir á sér og líkaminn fer í dýpri svefn," segir hún. Það sé ástæðan fyrir því að börnin séu látin sofa utandyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×