Innlent

Langþreytt á sóðaskap miðbæjargesta

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Formaður íbúasamtaka miðborgarinnar segir að fjölga þurfi almenningssalernum í miðborginni og fara betur eftir lögreglusamþykkt borgarinnar sem bannar þvaglát á almannafæri. Fréttastofa fann fjögur almenningssalerni í miðbænum í dag, en eitt þeirra var bilað.

Íbúa einum í miðborginni brast þolinmæðin í nótt þegar hann varð var við það að þrír menn voru að míga á kjallaragluggann á svefnherbergi hans. Maðurinn rauk út kviknakinn með stærðarinnar frumskógarsveðju og hóf atlögu að mönnunum og rassskellti þá með flatri sveðjunni. Að því loknu sneri hann aftur inn á heimili sitt en samkvæmt sjónarvotti sem fréttastofa ræddi við í dag réðst einn af mönnunum að heimilinu og braut glugga í útidyrahurðinni. Lögregla var kölluð til og handtók hún sveðjumanninn en engum sögum fer af örlögum þeirra sem migu á hús hans en þvaglát á almannafæri eru brot á lögreglusamþykkt borgarinnar og við því liggur allt að tíu þúsund króna sekt.

Formaður íbúasamtaka miðborgarinnar segir íbúa orðna langþreytta á sóðaskap miðbæjargesta um helgar.

„Við erum margbúin að kvarta yfir þessu og lögreglan virðist ekkert ráða við þetta, það þarf náttúrulega bara að sekta fólk á staðnum strax eða taka það úr umferð. Þetta tilvik núna, þegar húseigandi bregst svona við, kannski á of drastískan máta en það er náttúrulega týpískt að heyra að hann var handtekinn en ekki fólkið sem var að pissa," segir Magnús Skúlason, formaður íbúasamtaka miðborgarinnar.

Samtals fann fréttastofa fjögur almenningssalerni í miðborginni en eitt þeirra var bilað, þá hafa salerni að Bankastræti núll verið lokuð um nokkurt skeið.

„Það er náttúrulega alveg greinilegt að það vantar almenningssalerni hérna, það vantar ruslatunnur og þess háttar og svo vantar bara þetta að fara eftir lögreglusamþykkt borgarinnar og taka hart á þeim sem eru að haga sér á þennan hátt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×