Innlent

Ósáttar við spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslu

BBI skrifar
Lilja Mósesdóttir, sitjandi formaður stjórnmálaaflsins Samstöðu.
Lilja Mósesdóttir, sitjandi formaður stjórnmálaaflsins Samstöðu. Mynd/Vilhelm
Þingkonurnar Lilja Mósesdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir vita hvorugar hvernig þær eiga að svara fyrstu spurningunni í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Þær hafa efasemdir um framsetningu spurningarinnar.

Fyrsta spurningin í atkvæðagreiðslunni verður hvort rétt sé að leggja tillögur stjórnlagaráðs í heild sinni til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.

„Ég veit ekki hvernig ég á að svara þeirri spurningu," sagði Lilja. Hún segist ánægð með margt í tillögunum og efins um annað. Þingkonurnar óttast að sama hvernig þær svara spurningunni verði svar þeirra rangtúlkað.

„Þeir sem eru á móti stjórnlagaráði munu túlka nei-ið sem algera höfnun á tillögunum," sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins. Stjórnlagaráðsmenn og aðrir stuðningsmenn tillagnanna munu hins vegar túlka já-in sem svo að tillögurnar eigi óbreyttar að verða að stjórnarskrá.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, ætlar hins vegar að svara spurningunni játandi. Hann telur tillögurnar góðan grundvöll að stjórnarskrá sem svo fari til umræðu á Alþingi. Árni telur raunhæft að klára umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi á kjörtímabilinu. Unnur Brá hefur hins vegar vægast sagt miklar efasemdir um að það takist.

„Ég held að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé eitt af því sem er einfaldlega sett fram svo ríkisstjórnin geti krossað út af listanum sínum að hún hafi haldið hér þjóðaratkvæðagreiðslu algerlega óháð því hvort það muni skila einhverjum árangri,“ segir Unnur Brá.

Umræðurnar í heild sinni eru á hlekknum hér að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×