Erlent

Norðmenn leyfa lyf sem inniheldur kannabis

Norðmenn hafa ákveðið að leyfa notkun lyfs sem inniheldur kannabis. Um er að ræða úðann Sativex en notkun hans hefur þegar verið leyfð í Svíþjóð og Finnlandi.

Sativex úðinn er notaður af sjúklingum með MS sjúkdóminn og hjálpar þeim við að glíma við einkenni þessa ólæknandi sjúkdóms eins og verki og vöðvakrampa. Á milli 7.000 og 8.000 Norðmenn glíma við MS sjúkdóminn.

Í frétt um málið í Verdens Gang kemur fram að þar sem kannabis er á lista yfir ólögleg fíkniefni í Noregi þurfi að gera breytingar á þeirri löggjöf svo læknar geti ávísað Sativex. Unnið er að því þessa stundina, að sögn Cecilie Daae deildarstjóra í norska heilbrigðsráðuneytinu.

Daae segir einnig, í samtali við Verdens Gang, að reynslan hafi sýnt að litlar líkur séu á að MS sjúklingar verði háðir kannabisefnum með því að nota Sativex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×