Innlent

Segir meiri líkur á að Bretar segir sig úr ESB

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Evrukrísan mun breyta Evrópusambandinu og verði það lagskipt í framtíðinni, eins og nú er spáð, eru meiri líkur á því að Bretland segi sig úr sambandinu en að vera í neðri deild þess. Þetta sagði David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, í erindi sem hann hélt í Háskóla Íslands í dag.

David Miliband fundaði með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í stjórnarráðshúsinu í morgun áður en hann hélt erindi um framtíð Evrópu í Háskóla Íslands í dag. Hann er hér á landi í boði skólans og forseta Íslands.

Miliband sagði að röng stefna hefði verið valin við lausn á vanda evrusvæðis. Aðhaldsaðgerðir hefðu dregið úr vexti og veikt bankakerfið.

„Aðhaldsstefnan lengir göngin í stað þess að draga ljósið nær. Hún dregur úr hagvexti og veikir bankakerfið. Rétt væri að beita and- aðhaldsstefnu til skamms tíma og umbótum til lengri tíma. Þetta er hinn pólitíski þægindastaður sem Evrópu yfirsést þessa stundina," sagði Miliband.

Hann minntist ekkert á hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, en sagði að vandinn á evrusvæðinu myndi varanlega breyta eðli Evrópusambandsins.

„Evrukreppan mun breyta því hvernig Evrópusambandið virkar í grundvallaratriðum. Ef evrunni verður bjargað, og það verður að vera "ef", ef evrunni verður bjargað verður það vegna breytinga í átt að uppbyggingu sambandsríkis á evrusvæðinu," sagði Miliband og bætti við að ef ESB yrði lagskipt með auknum pólitískum samruna þeirra ríkja sem nota evruna og hinna sem standa fyrir utan, eins og verið hefur spáð, muni Bretland frekar hætta í ESB en að vera í annarri deildinni, eins og hann orðar það.

„Ef við fylgjum þessu eftir í Bretlandi spái ég því að við endum algjörlega fyrir utan Evrópusambandið. Því það gengur ekki sem stöðugt ástand fyrir land eins og Bretland að vera í annarri deildinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×