Innlent

Átta Íslendingar í haldi í Danmörku - höfuðpaurinn íslenskur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslendingarnir sem flæktir eru í risastórt fíkniefnamál í Danmörku eru átta talsins. Þeir eru allir í haldi þar ytra. Talsmaður dönsku fíkniefnalögreglunnar segir að höfuðpaurinn í málinu sé Íslendingur og hann lofar samstarf dönsku lögreglunnar við þá íslensku í málinu.

Lögreglan hefur hingað til verið þögul sem gröfin vegna þessa máls en í dag gaf danska lögreglan út tilkynningu vegna málsins. Þar kemur fram að rannsókn málsins hafi hafist í maímánuði og verið samstarfsverkefni lögreglunnar í Danmörku, Noregi og Íslandi. Flestir hinna grunuðu í málinu eru íslenskir eða átta einstaklingar, en alls eru ellefu í haldi vegna málsins.

Lögregla fylgdist lengi með hinum grunuðu og fljótt kom í ljós að höfuðpaurinn var Íslendingur búsettur á Spáni, sem fréttastofan hefur heimildir fyrir að sé Guðmundur Ingi Þóroddsson, eins og fram kom í fréttum fyrr í vikunni. Hann hefur áður hlotið þungan dóm fyrir fíkniefnabrot.

Steffen Thaaning Steffensen, yfirmaður deildar sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi, staðfestir við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis að höfuðpaurinn sé 38 ára Íslendingur.

Í ágúst komst lögreglan á snoðir um að lagt væri á ráðin um smygl á fíknirefnum frá Hollandi til Danmerkur og um miðjan mánuðinn var 54 ára gamall maður frá Chile, með franskan ríkisborgararétt, handtekinn við komuna til Danmerkur. Í bifreið hans fundust 12 kíló af amfetamíni. Ekki var greint frá handtökunni þar sem lögreglan taldi sig vita að von væri á enn stærri sendingu skömmu síðar.

Þann þrettánda september voru tveir smyglarar teknir til viðbótar. Um er að ræða Íslendinga um tvítugt. Í bifreið þeirra fundust 22 kíló af amfetamíni og um 600 grömm af alsælu.

Í framhaldinu voru fleiri handteknir vegna málsins, þar á meðal hinn grunaði höfuðpaur. Hinir Íslendingarnir í haldi eru 49 ára, 34 ára og 28 ára.

Steffen lofsamar samstarf lögregluembættanna á Norðurlöndunum í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×