Innlent

Forseti Alþingis þrýstir á Ríkisendurskoðun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þrýstir á Ríkisendurskoðun um að klára málið.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þrýstir á Ríkisendurskoðun um að klára málið.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, krefst þess að Ríkisendurskoðun ljúki við skýrslu í lok október næstkomandi sem stofnuninni var falið að gera í apríl 2004. Umrædd skýrsla snýst um kaup ríkisins á fjárhags- og mannauðskerfinu Oracle á árinu 2001, innleiðingu kerfisins og rekstur þess síðan þá. Umrædd skýrsla hefur verið töluvert til umfjöllunar í vikunni eftir Kastjlóssþátt á mánudaginn þar sem fram kom að kostnaður vegna kerfisins hefði verið miklu meiri en talið var.

„Ég tel að dráttur á gerð skýrslunnar sé mjög aðfinnsluverður. Slíkt má aldrei endurtaka sig. Lagaheimild til þess að óska skýrslna Ríkisendurskoðunar er einn mikilvægasti þátturinn í eftirlitshlutverki Alþingis. Með bréfi þessu fer ég fram á það við Ríkisendurskoðun að hún ljúki skýrslugerðinni hið allra fyrsta og eigi síðar en fyrir lok októbermánaðar. Skýrslan verði þá þegar send Alþingi eins og lög kveða á um," segir Ásta Ragnheiður í bréfinu til Ríkisendurskoðunar.

Í lok bréfsins segist Ásta binda vonir við að málið muni fá eðlilega meðferð og niðurstöðu af hálfu Alþingis. Forsenda þess er þó sú að fullbúin skýrsla Ríkisendurskoðunar komi fram hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×