Innlent

Kjúklingatollar of háir - fjárhagslegt tjón hjá neytendum

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ríkið til þess að greiða innflutningsfyrirtækinu Innnes ehf. tæplega 400 þúsund krónur vegna framkvæmdar og fyrirkomulags tollkvóta á landbúnaðarafurðum. Af hálfu Innnes ehf. var gerð krafa til fjárgreiðslu úr ríkissjóði vegna oftekinna tolla.

Forsaga þessa máls er að með reglugerðum árið 2009 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarvörum ákvað þáverandi landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, að miða svokallaðan tollkvóta við verð, þ.e. verðtoll, en ekki magn. Fyrirkomulag þetta var svo endurtekið árin 2010 og 2011.

Í tilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu segir að með ákvörðun sinni breytti ráðherrann út frá þeirri framkvæmd sem áður hafði tíðkast en frá árinu 1995 til ársins 2008 hafði magntolli ávallt verið beitt, þ.e. tiltekið gjald lagt á hvert innflutt kíló.

Fól þessi breyting í sér verðhækkun á tollkvótum en kvótum þessum er ætlað hið gagnstæða - tilgangur þessara breytinga var því að hækka verð á innfluttum landbúnaðarvörum. Í kjölfar ákvörðunar ráðherra voru athugasemdir gerðar við þá breytingu sem hefur leitt til gjörbreyttra markaðsforsendna og óþarfa tjóns fyrir neytendur sem og innflytjendur.

Í kjölfarið, þ.e. í júní 2010, beindu SVÞ kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar ráðherra um tollkvóta varðandi innflutning á nautgripa-, svína- og alifuglakjöti. Niðurstaða umboðsmanns var sú að hann taldi að þær heimildir sem ráðherra eru veittar til ákvörðunar um álagningu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga og búvörulaga samræmdust ekki ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Svo segir í tilkynningunni að það sé ljóst að brot ráðherra hefur haft í för með sér verulegt fjárhagslegt tjón, bæði fyrir neytendur sem og almenning. Ákvarðanir stóðu því í vegi fyrir að unnt hafi verið að flytja inn landbúnaðarvörur á samkeppnishæfu verði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×