Innlent

Nikki er eini starfsmaður lögreglunnar í Vaughn

Athugið að myndin er úr safni.
Athugið að myndin er úr safni.
Íbúar smábæjarins Vauhgn í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum, eru heldur uggandi yfir öryggi bæjarbúa þessa dagana. Kannski eru áhyggjur þeirra eðlilegar en eini fulltrúi lögreglunnar í bænum er fíkniefnahundurinn Nikki. Og þó fíkniefnatíkin Nikka sé eflaust frábær starfskraftur, eiga glæpamenn líklega frekar auðvelt með að snúa á hana, sennilega þarf ekki meira en eina safaríka steik til.

Ástæðan fyrir því að Nikka er sú eina sem er eftir af lögregluliði bæjarins sem telur um 500 íbúa er sú að lögreglustjórinn sjálfur, Ernest "Chris" Armijo, ákvað að segja upp störfum þar sem hann mátti ekki bera skotvopn.

Lög í ríkinu kveða á um að þeir sem hafi gerst brotlegir við lög megi ekki bera byssur. Lögreglustjórinn skuldar nefnilega stórfé í meðlagsgreiðslur. Raunar virðist lögreglustjórinn ekki sá heiðarlegasti í bænum því hann hefur einnig verið sakaður um að selja riffla í eigu bæjarins og hirða ágóðann sjálfur.

Lögreglufulltrúinn í bænum, sem er mennskur vel að merkja, þurfti að hætta störfum eftir að hann var fundinn sekur um líkamsárás á síðasta ári.

Bæjarbúar hafa krafið saksóknara bæjarins um svör en hann segir íbúa ekki þurfa að hafa áhyggjur. Hann benti meðal annars á að breska lögreglan bæri ekki skotvopn. Ekki er búið að ákveða hvort nýr lögreglumaður verði ráðinn á næstu dögum, þangað til mun Nikki hafa vökult auga með bæjarbúum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×