Innlent

Fær ekki fjáraukalagafrumvarpið - algjör trúnaðarbrestur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Trúnaðarbrestur ríkir milli fjárlaganefndar Alþingis og Ríkisendurskoðunar vegna Oracle málsins svokallaða. Sá trúnaðarbrestur hefur leitt til þess að meirihluti fjárlaganefndar vill ekki láta Ríkisendurskoðun hafa fjáraukalagafrumvarpið til umsagnar, enn sem komið er. Nefndin fundaði um málið í morgun. „Það var ákveðið í morgun að bíða aðeins með frekari samskipti við ríkisendurskoðun á meðan menn væru að ná betra trausti og trúnaði þar á milli,“ segir Lúðvík Geirsson, varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við Vísi. 

„Það situr í mönnum ýmislegt og ýmsum spurningum ósvarað af þessum samskiptum sem hafa verið síðustu daga og upplýsingum sem hafa komið fram. Og menn hafa viljað skoða þau mál betur og hvernig á að taka á því innan fjárlaganefndar og ég veit að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin er með þau mál til skoðunar líka,“ segir Lúðvík. Því hefðu menn talið að það væri rétt að hinkra aðeins með frekari samskipti við Ríkisendurskoðun.

Lúðvík játar því að það sé kominn upp trúnaðarbrestur milli fjárlaganefndar Alþingis og Ríkisendurskoðunar. „Það er óhætt að segja það. Formaðurinn hefur lýst því yfir og meirihluti nefndarinnar samsinnir honum í því,“ segir Lúðvík, en Björn Valur Gíslason er formaður fjárlaganefndar. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd voru ósammála meirihlutanum varðandi þetta mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×