Erlent

Romney stórskaðar framboð sitt með niðrandi ummælum

Mitt Romney hefur stórskaðað framboð sitt til forseta Bandaríkjanna með því að fara háðuglegum og niðrandi orðum um kjósendur Barack Obama.

Orð þessi lét Romney falla á fundi með sterkefnuðum einstaklingum sem hann vildi að leggðu fram fé í kosningasjóð sinn. Romney áttaði sig ekki á því að fundurinn var tekinn upp á myndband en það myndband er nú komið á vefsíðu Mother Jones.

Í upptökunni heyrist Romney m.a. segja að þau 47% kjósenda sem styðja Obama séu bótaþegar sem lifi á framlögum frá hinu opinbera. Þetta fólk borgi ekki tekjuskatt og skilji því ekki stefnu hans um skattalækkanir.

Þá segir Romney að hann muni aldrei getað sannfært þessa kjósendur um að þeir eigi að standa á eigin fótum og bera ábyrgð á lífi sínu.

Kosningastjóri Obama var fljótur að bregðast við þessum orðum Romney og sagði m.a.að það væri hneyksli að frambjóðandi til forsetaembættis Bandaríkjanna liti á helming þjóðar sinnar sem ölmusuþega og væri fullur fyrirlitningar í garð þessa fólks.

Fyrstu viðbrögð Romney í nótt þegar hann var spurður um ummæli sín voru að segja að hann hefði mátt orða þetta betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×