Erlent

Rottuplága er vandamál í einu hverfa New York borgar

Rottugangur er vaxandi vandamál fyrir New Yorkbúa og nú hefur einn þeirra vakið athygli á því á nýstárlegan hátt.

Sá sem hér um ræðir heitir Joseph Bolanos og býr í Upper West Side hverfinu í borginni. Hann ákvað nýlega að búa til og setja upp sérstakt umferðarskilti fyrir utan heimili sitt þar sem fólk er varað við rottum á ferð um götur og gangstéttir hverfisins.

Málið hefur vakið athygli fjölmiðla í New York og ein af sjónvarpsstöðvum borgarinnar birti viðtal við Bolanos um málið. Hann segir að hann hafi verið orðinn svo þreyttur á öskrum og ópum vegfarenda á götunni þegar rottur hlupu um fætur þeirra að kvöldi og nóttu að hann ákvað að útbúa skiltið.

Borgaryfirvöld hafa brugðist við þessu með því að samþykkja að setja upp sérstakar sorptunnur í hverfinu en þessar tunnur þjappa sorpinu saman á sjálfvirkan hátt. Með þessu er vonast til að eitthvað dragi úr rottuplágunni í Upper West Side hverfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×