Erlent

Skipulagðar aftökur í Sýrlandi

Stuðningsmenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, með fána og veifur.
Stuðningsmenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, með fána og veifur. Mynd/AFP
Uppreisnarmenn í Sýrlandi segja að hundruð líka hafi fundist í bæ í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus. Saka þeir stjórnarhermenn um fjöldamorð og segja greinilegt að margir hinna látnu hafi verið teknir af lífi með skipulögðum hætti.

Óstaðfestar fregnir herma að um tvöhundruð lík hafi fundist á heimilum og í kjöllurum húsa. Stjórnvöld hafa ekki svarað ásökunum uppreisnarmanna en segja að bærinn sem um ræðir, Darayya, hafi verið hreinsaður af hryðjuverkamönnum, eins og það er orðað.

Hermenn Bashar al-Assad forseta réðust á bæinn í gær eftir að sprengjum hafði verið látið rigna á hann síðustu vikur. Fréttaritari BBC í Beirút segir að árásin á bæinn sé hluti af stærri sókn sem miðar að því að ná aftur tökum á úthverfum Damaskus í suðri þar sem uppreisnarmenn hafa verið að ná vopnum sínum eftir að hafa verið flæmdir úr höfuðborginni fyrir mánuði. Andófsmennirnir segja að mörg líkanna séu með skotsár á höfði og brjósti og að greinilegt að fólkið hafi verið tekið af lífi þegar stjórnarhermenn fóru hús úr húsi í bænum. Yfirmaður sendinefndar Sameinuðu þjóðanna, hershöfðinginn Babacar Gaye yfirgaf Sýrland í gær en í síðustu viku afréðu Sameinuðu þjóðirnar að framlengja ekki veru eftirlitsmannanna sem verið hafa í landinu síðustu mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×