Erlent

Ísak veldur usla í New Orleans

Götur New Orleansborgar voru auðar þegar lægðamiðja Ísaks nálgaðist borgina fyrr í dag. Íbúar borgarinnar eru hreint ekki ókunnugir slíkri veðráttu enda eru fellibyljir tíðir á suðausturströnd Bandaríkjanna.

Vindstyrkur Ísaks, sem er fyrsta stigs fellibylur, hefur náð um og yfir fjörutíu metrum á sekúndu. Hann er því engan veginn jafn öflugur og fellbylurinn Katrína sem olli miklu tjóni fyrir sjö árum síðan. Vindstyrkur í Katrínu náði allt að sjötíu og átta metrum og sekúndu.

Það er því ekki búist við að Ísak muni valda jafn miklu tjóni og Katrína. Samt sem áður hafa yfirvöld í New Orleansborg og Louisianaríki hvatt fólk til að halda sig innandyra. Rúmlega hálf milljón manna eru án rafmagns í ríkinu og þremur öðrum. Þá hafa þúsundir flúið heimili sín.

Fellibyljir eru afar óreiðukennd og óútreiknanleg veðurkerfi. Erfitt getur verið að geta sér til um braut þeirra og styrk. En eitt er ljóst: Ísak fer hægt yfir. Þegar fellibylurinn náði landi í morgun hægðist verulega á honum. Þessu fylgir mikið vatnsveður og það er einmitt það sem yfirvöld í New Orleans óttast.

Borgarstjóri New Orleans, Mitch Landrieu, sagði í dag að flóðvarnargarðar borgarinnar væru í stakk búnir til að takast á við úrhellið og að vel hefði gengið að dæla burt flóðvatni í borginni. Þá hefur Bobby Jindal, ríkisstjóri Louisiana, biðlað til íbúa að fara varlega og gera ráð fyrir hinu versta.

„Þetta var hálfbrjálað, mjög hvasst og blautt," segir Vigdís María Hermannsdóttir. „Það voru trjágreinar úti um allt. En þetta er samt ekki svo slæmt, það var bara mjög hvasst og blautt. Þetta er ekki hættulegt."

Ísak mun halda áfram að valda usla í kvöld og nótt. Gert er ráð fyrir að hann nái að bænum Baton Rouge í norðvestur New Orleans á næstu tólf tímum en þá mun hafa dregið úr vindstyrknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×