Erlent

Eina í heiminum sem fær neglur í andlitið

Hin tuttugu og átta ára gamla Shanyna Isom frá Bandaríkjunum hefur gengið í gegnum margt á síðustu árum því fyrir þremur árum byrjuðu neglur að vaxa á andliti hennar. Hvers vegna það gerðist - veit enginn.

Shanyna var á fyrsta ári í laganámi í Memphis-háskóla þegar hún fékk astmakast. Læknir ráðlagði henni að taka inn stera en eftir nokkra daga byrjaði henni að klæja um allan líkamann. Læknar héldu í fyrstu að hún væri með einhverskonar exem, en það reyndist ekki vera.

Henni byrjaði að líða mjög illa, fékk svört útbrot á fæturnar og byrjaði að missa sjón. Útbrotin sem voru um allan líkamann, en þá aðallega á höfði og andliti, voru mjög slæm.

Eftir rannsóknir lækna kom í ljós að útbrotin voru í raun og veru neglur, eins og þær sem við mannfólkið fáum fremst á fingurna og tærnar. Læknar standa ráðþrota gagnvart þessum óvenjulega sjúkdómi og hefur Isom hitt flesta sérfræðinga í Bandaríkjunum, sem og lækni í Hollandi, en enginn veit hvað er á seyði.

Neglurnar virðast vaxa allsstaðar þar sem hár vex. Móðir hennar segir að þegar komið er við nagla-útbrotin séu þau hörð viðkomu og geta vaxið nokkuð mikið.

Hún liggur á sjúkrahúsi og tekur fjöldan allan af vítamínum. Enginn veit hvað hrjáir hana og er hún sú eina í heiminum sem fær þennan sjúkdóm.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×