Enski boltinn

Terry neitar sök

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Terry á leið í réttarsalinn á dögunum.
Terry á leið í réttarsalinn á dögunum. Nordicphotos/Getty
John Terry, miðvörður Chelsea og enska landsliðsins, hefur neitað að hafa haft kynþáttafordóma í frammi gagnvart Anton Ferdinand í viðureign QPR og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í haust.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu í dag en sambandið kærði Terry á dögunum fyrir ummæli í leiknum fyrrnefnda. Terry hafði til dagsins í dag að neita formlega sök og óska eftir áheyrn en hann hafði þó látið hafa eftir sér að hann væri saklaus sama dag og ákæran var birt.

Terry var á dögunum sýknaður í rétti af sömu sök. Þar komst dómarinn að þeirri niðurstöðu að ekki reyndist sannað að orð Terry hefðu átt að vera móðgandi.

Í vörn sinni hélt Terry því fram að hann hefði verið að svara ásökun Ferdinand um kynþáttafordóma á kaldhæðnislegan hátt. Orð hans hefðu ekki falið í sér kynþáttaníð.

Enska knattspyrnusambandið kærði Terry fljótlega eftir leikinn í október en frestaði fyrirtöku málsins á meðan það var fyrri rétti. Sá grundvallarmunur er á umfjöllun málsins hjá enska knattspyrnusambandinu að aganefnd þess getur byggt niðurstöðu sína á líkindum öfugt við breska réttarkerfið þar sem sönnunarbyrðin er mun meiri.

Terry hefur óskað eftir áheyrn enska knattspyrnusambandsins en ekki liggur fyrir hvenær hún fer fram. Chelsea mætir Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn laugardaginn 12. ágúst.


Tengdar fréttir

Enska knattspyrnusambandið ákærir Terry | Neitar sök

Enska knattspyrnusambandið hefur ákært John Terry, miðvörð Chelsea, fyrir orðbragð sitt í garð Antons Ferdinand, leikmanns QPR, í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni í október. Terry hefur neitað sök og óskað eftir fundi með aganefnd sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×