Erlent

Hvít-Rússar og Svíar í diplómatískri deilu

mynd/AP
Hvít-Rússar og Svíar deila nú um leikfangabangsa sem féllu af himnum ofan. Málið hófst þegar sænskt almannatengslafyrirtæki dreifði 800 böngsum til Hvít-Rússa úr flugvél. Bangsarnir féllu til jarðar í litlum fallhlífum en á þeim voru hvatningarorð til landsmanna um að berjast fyrir mannréttindum.

Stjórnmálafrelsi er af skornum skammti í Hvíta-Rússlandi. Þykja yfirvöld ganga afar hart fram gegn andófsmönnum í landinu en stjórnarandstæðingar hafa átt erfitt uppdráttar í landinu frá því að Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, náði endurkjöri árið 2010.

Lúkasjenkó rak yfirmenn flughersins og landamæravörslu Hvíta-Rússlands stuttu eftir atvikið og er það líklega í fyrsta skipti sem leikfangabangsar hafa steypt hernaðarleiðtogum af stóli.

En yfirvöld í Hvíta-Rússlandi létu ekki þar við sitja. Nú hafa allir erindrekar Svíþjóðar í Hvíta-Rússlandi verið reknir úr landi. Sendiráði Hvíta-Rússlands í Stokkhólmi var síðan lokað í þokkabót.

Þessi hörðu viðbrögð ríkisstjórnar Lúkasjenkó hafa vakið mikla athygli í Svíþjóð. Á Twittersíðu sinni í gær sagði Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, að ótti Lúkasjenkó við aukin mannréttindi í Hvíta-Rússlandi hefði nú náð nýjum hæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×