Erlent

Er vernduð tjáning að ýta á „like“?

BBI skrifar
Mynd/AFP
Er það hluti af tjáningarfrelsi hvers manns að ýta á „like" hnappinn á facebook? Þessari spurningu verður brátt svarað fyrir dómstólum í Bandaríkjunum.

Daniel Ray Carter Jr. skráði sig inn á Facebook einn daginn og smellti einu „like" á ákveðna síðu eins og þorri facebook notenda gerir á degi hverjum. Ekki vildi betur til en að sá sem átti síðuna átti í einhvers konar deilu við yfirmann Carter. Sá gerði sér lítið fyrir og rak Carter úr starfi fyrir þetta sakleysislega músarklikk.

Tvímenningarnir eiga nú í illdeilum fyrir bandarískum dómstólum og vill Carter meina að hann hafi rétt til að „læka" hvaða síðu sem er í krafti tjáningarfrelsis síns án þess að eiga á hættu að vera rekinn fyrir vikið.

Neðri dómstóll hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrárbundinn réttur fólks til að tjá skoðanir sínar verndi ekki rétt fólks til að ýta á „like" því í því felist ekki „raunveruleg fullyrðing". Málið er nú komið á efra dómsstig, enda talið hafa fordæmisgildi fyrir alls kyns tjáningu á netinu og hafa ýmsir aðilar látið það til sín taka, m.a. sjálft facebook-teymið.

The Washington Post segir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×