Erlent

Fundu gat á ósonlaginu yfir Bandaríkjunum

Vísindamenn við Harvard háskólann hafa fundið gat á ósonlaginu yfir Bandaríkjunum.

Þetta kom vísindamönnunum í opna skjöldu og veldur þeim miklum áhyggjum. Göt á ósonlaginu hafa nær ætíð myndast yfir köldum svæðum á jarðkringlunni eins og Suðurskautinu. Hinsvegar hafa miklir hitar herjað á Bandaríkjamenn í sumar og velflest hitamet hafa verið slegin í landinu. Afleiðingarnar hafa verið þurrkar og uppskerubrestur.

Vísindamennirnir segja að ef gat getur myndast á ósonlaginu yfir Bandaríkjunum við slíkar aðstæður geti slíkt gat myndast hvar sem er í heiminum.

Ósonlagið er mannkyninu gífurlega mikilvægt því það dregur verulega úr útfjólublárri geislun frá sólunni. Slík geislun er helsta uppspretta húðkrabbameins og getur skaðað ónæmiskerfi líkamans.

Fjallað er um málið í tímariti Harvard háskólans og þar kemur fram að gatið í ósonlaginu hafi fundist fyrir tilviljun. Þeir vísindamenn sem fundu það voru að mæla rakastig í háloftunum og það hve hátt vatnsgufa stígur til himins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×