Erlent

Skelfing í Úganda eftir ebólu-smit

Ebólu-veira.
Ebólu-veira. mynd/Wiki.Commons
Ebólu-faraldur geisar nú í Úganda. Forseti landsins, Yoweri Museveni, ávarpaði þjóð sína í dag. Hann biðlaði til fólksins um að gæta ýtrustu varúðar í kringum annað fólk og forðast handabönd, faðmlög og kossa.

Að minnsta kosti 14 hafa látist af völdum veirunnar í Kibaale-héraðinu í vesturhluta landsins. Frá aldamótum hafa 224 látið lífið í landinu eftir að hafa smitast af veirunni en síðasta skráð smit var árið 2007.

Mikil skelfing greip um sig í Kibaale eftir að veiran var greind. Einkenni ebólu eru oft á tíðum afar lík þeim sem fylgja malaríu sem er landlægur sjúkdómur í Úganda.

Museveni sagði í dag að heilbrigðisyfirvöld í landinu vinni dag og nótt við að hefta útbreiðslu veirunnar. Fulltrúar Alþjóðaheilbrigðismálastofnun og Smitvarnastofnunar Bandaríkjanna eru á staðnum og aðstoða nú yfirvöld við að greina möguleg smit.

Að minnsta kosti eitt ebólu-smit kom upp á Mulago-sjúkrahúsinu í Kampala, höfuðborg Úganda. Hátt í þrjátíu heilbrigðisstarfsmenn eru nú í einangrun á spítalanum.

Ebóla er ein hættulegasta veira sem þekkist. Fyrsta skráða tilfellið kom upp í Austur-Kongó árið 1976, síðan þá hefur veiran kostað rúmlega 1.200 manns lífið.

Í kjölfar smits herjar veiran á nær öll líffæri manneskjunnar og étur upp vefi líkamans. Ebóla er ólæknandi sjúkdómur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×