Erlent

Reyna á ný að fara inn á heimili ódæðismannsins

Frá minningarathöfninni í nótt.
Frá minningarathöfninni í nótt. mynd/AFP
Lögreglan í Aurora í Colorado mun reyna á ný að fara inn á heimili mannsins sem myrti kvikmyndahúsagesti í bænum í gær. Ljóst er að maðurinn, James Holmes, hafði komið fyrir fjölda sprengjugildra í húsinu. Lögreglustjórinn í Aurora segir að gríðarlegt magn sprengiefna sé í íbúðinni.

Tólf létust þegar Holmes hóf skotárás á sýningargesti í Aurora í gær. Um var að ræða forsýningu nýjustu kvikmyndarinnar um Leðurblökumanninn, The Dark Knight Rises. Samkvæmt yfirvöldum í bænum særðust um 60 manns í árásinni, þar af margir lífshættulega.

Holmes var færður í varðhald en þar sagði hann lögreglumönnum að hann væri í raun Jókerinn, erkióvinur Leðurblökumannsins, og að nokkrar sprengjur væru á heimili sínu.

Sprengjusérfræðingar staðfestu síðan þetta stuttu seinna.

Fórnarlamba skotárásarinnar var minnst í Aurora í nótt. Um 200 manns söfnuðust saman fyrir utan kvikmyndahúsið, kveiktu á kertum og báðust fyrir.

Skotárásin hefur verið fordæmt af helstu leiðtogum Bandaríkjanna og víða er flaggað í hálfa stöng. Leikstjóri kvikmyndarinnar hefur einnig vottað aðstandendum samúð sína og segir hug sinn, og allra þeirra sem komu að gerð myndarinnar, vera hjá fórnarlömbunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×