Lífið

Tónleikar í Bíó Paradís á fimmtudögum

BBI skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Þegar vora tekur og sólin fer að skína missir hin myrkrum þjakaða þjóð allan áhuga á að sitja í dimmum bíósal og borða popp. Þetta hefur ekki farið fram hjá þeim sem reka Bíó Paradís. Þess vegna verða ekki bíósýningar í sal eitt á fimmtudagskvöldum klukkan tíu heldur tónleikar í staðinn.

„Það er svona hálftilgangslaust að keppa við stóru bíóin á sumrin. Þannig við ákváðum bara að gera eitthvað skemmtilegt," segir Tumi Árnason, sem sér um tónleikaröðina. Rétt er að taka fram að það eru aðeins sýningar í sal eitt sem felldar eru niður en starfsemi í öðrum sölum er óbreytt.

Tónleikarnir verða í Bíó Paradís á fimmtudögum klukkan 10. Nú þegar hafa tvennir tónleikar farið fram. Hvorir tveggja fóru fram á kaffihúsinu í anddyri kvikmyndahússins en sömuleiðis verður í boði að halda tónleika í sjálfum bíósalnum. Þá getur fólk setið sperrt og menningarlegt í sætum og horft yfirvegað á tónlistarmennina. Og það er einmitt það sem stendur til næsta fimmtudag þegar hljómsveitin The Heavy Experience verður meðal þeirra sem stígur á stokk.

„Við ætlum að varpa myndum á tjaldið og prófa okkur áfram með að nota salinn eins og við getum," segir Tumi sem er einnig saxófónleikari hljómsveitarinnar. Hér má sjá facebook síðu þeirra tónleika.

Tónleikaröðin mun standa fram í ágúst og ljúka með einhvers konar menningarnæturdagskrá. Aðgangur á alla tónleikana er ókeypis. „Við hvetjum fólk bara til að mæta snemma á kaffihúsið, drekka kaffi og bjór og njóta lífsins í sumargleðinni," segir Tumi.

Athugasemd 25. júlí: Fyrirsögn fréttarinnar var áður: Ekki bíó í Bíó Paradís á fimmtudögum. Því var breytt þar sem það þótti villandi og neikvætt. Hér með undirstrikast að það er bíó í Bíó Paradís alla fimmtudaga í öllum sölum allan daginn nema sal númer eitt klukkan 10.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.