Erlent

Teygjur koma hvorki í veg fyrir harðsperrur né meiðsl

BBI skrifar
Mynd/Getty
Það er gjarna sagt að teygjur minnki líkur á harðsperrum og komi í veg fyrir meiðsl. Börnum er kennt að teygja eftir skólaíþróttir og fótboltalið sitja saman í hring í asnalegum stellingum eftir leiki til að passa upp á líkamann. Fréttamenn Breska Ríkisútvarpsins BBC veltu upp spurningunni hvort teygjur hafi einhver raunveruleg áhrif.

Annars vegar var skoðað hvort teygjur hefðu áhrif á harðsperrur. Ekki hafa margar rannsóknir verið gerðar. Þær sem þó hafa verið gerðar benda eindregið til þess að teygjur hafi hverfandi áhrif í þeim efnum. Stærsta rannsóknin sem gerð var benti til þess að áhrifin væru þau mjög lítil, 32% þeirra sem ekki teygðu eftir æfingu fengu harðsperrur en 24% hinna. Eldri kenningar um að teygjur skiptu öllu byggðu á gömlum misskilningi á því hvernig harðsperrur myndast.

Hins vegar var skoðað hvort teygjur kæmu í veg fyrir meiðsl. Rannsóknir bentu til þess að teygjur skiptu hreinlega engu máli.

Það er því ekki margt sem hvetur fólk sérstaklega til að teygja eftir æfingar. Aðspurður sagði Rob Herbert, sem stóð að einni af ofangreindum rannsóknum, að þeir sem hefðu unun af því að teygja mættu gjarna halda því áfram, það hefði alla vega ekki slæm áhrif. Hinir væru þó ekki verr settir þó þeir slepptu teygjuhringnum eftir æfingar.

Frétt BBC var birt með þeim fyrirvara að ekki ætti að líta á hana sem heilagan sannleik og jafnaðist ekki á við ráðleggingar frá lækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×