Erlent

Fékk of mikið af sígarettum

Starfsmenn dýragarðs í Indónesíu neyddust til að flytja órangúta til að forða honum frá gestum sem voru stöðugt að gefa honum sígarettur.

Tori er fimmtán ára kvenkyns órangúti en hún hefur reykt frá fimm ára aldri. Gestir dýragarðsins tóku snemma upp þann sig að kasta til hennar logandi sígarettum sem hún reykti - og hermdi þá eftir mannfólkinu.

Starfsmenn dýragarðsins hafa lengi reynt að koma í veg fyrir þenna ósið gesta en hingað til án árangurs.

Í gær var ákveðið að flytja Tori á annan stað innan dýragarðsins til að bregðast við þessum vanda.

„Eyjan er hönnuð þannig að hún sé að minnsta kosti 15 metra frá gestunum. Þá eiga þeir erfitt með að henda sígarettum svo langt. Ég held að þetta sé varanleg lausn til að Tori sé nægilega langt frá ábyrgðarlausum gestum," segir Hardi Baktiantoro, framkvæmdastjóri.

Órangútar í Índónesíu eru í útrýmingarhættu en reykingar eru - eins og allir vita - skaðlegar heilsu manna og jafnvel dýra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×