Erlent

Ólympíufarar taka samskiptamiðla í þjónustu sína

BBI skrifar
Besta ólympíumynd allra tíma?
Besta ólympíumynd allra tíma? Mynd/Twitter-síða Matt
Ólympíuleikarnir í London í ár eru í raun fyrstu Ólympíuleikarnir eftir að notkun á samskiptamiðlum eins og Facebook og Twitter varð almenn. Ólympíufarar hinna ýmsu landa hafa tekið miðlana í þjónustu sína og skemmt aðdáendum sínum á margvíslegan hátt, leyft þeim að líta við í búningsherbergjunum og fylgjast með stemningunni í herbúðum liðanna.

Myndin sem birtist hér til hliðar er tekin af Twitter-síðu ástralska dýfingarmannsins Matthew Mitcham. Matt er sérlega virkur á Twitter en þessa mynd setti hann inn 23. júlí síðastliðinni undir yfirskriftinni „Ummmm besta Ólympíumynd allra tíma?". Á myndinni stendur hann uppi á Ólympíuhringjunum í Ólympíuþorpinu en hún hefur farið eins og eldur í sinu um heiminn.

Uppátæki bandaríska sundliðsins var óvenjufrumlegt en þau bjuggu til dans við popplagið Call me maybe og settu á Youtube. Þar dillar liðið sínum stæltu líkömum í takt við lagið við misjafnar undirtektir notenda Youtube.

Einstaka íþróttamaður brennir sig á notkun miðlanna. Gríska þríþrautarkonan Voula Papachristou var rekin af leikunum fyrir að skrifa örfærslu á Twitter með niðrandi ummælum um ákveðna kynþætti.

Þetta eru aðeins þrjú dæmi um þúsundir íþróttamanna sem hafa notað samskiptamiðla til að fanga stemninguna á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×